„Við þurfum alla okkar krafta í þá lotu sem fram undan er. Það mun skila sér í bættu samfélagi og betra lífi og sýna að sú mynd sem hefur verið dregin upp síðustu áratugi, að græðgi sé góð og misskipting sé lögmál, sé ekki rétt,“ sagði Drífa Snædal, sem býður sig fram til forseta ASÍ, á þingi sambandsins sem fer nú fram.
„Ég hef þá skýru sýn að ASÍ sé vettvangur til að tengja saman þá ótal þræði sem spunnir eru í grasrótinni,“ bætti hún við.
Hún sagði mikilvægt að leiðrétta misskiptingu og ójöfnuð í samfélaginu, byggja þyrfti upp húsnæði af metnaði og taka á þeirri glæpastarfsemi sem hefði fengið að viðgangast á íslenskum vinnumarkaði.
„Það er mælikvarði á siðmenningu okkar hvernig við tökum á þessum brotum.“
Sverrir Mar Albertsson, sem einnig er í framboði til forseta, sagðist hafa upplifað þann kvíðahnút sem menn fengju í magann þegar ókunnugir menn gengju upp að húsinu. Átti hann þar við stefnuvotta.
„Ég er ekki stoltur af þessum kafla í lífi mínu,“ sagði hann og bætti við að hann væri löngu hættur að skammast sín fyrir að hafa gengið í gegnum þrengingar.
Einnig sagðist hann þekkja hvernig væri að vera „helvítis Íslendingur“ í útlöndum og hvernig áfengi sygi úr mönnum allan kraft og alla von.
Hann sagði að sér þætti ótrúlega vænt um ASÍ, þrátt fyrir að það hefði ekki alltaf verið þannig. Á síðustu árum hefði hann gert sér grein fyrir því að ASÍ hefði alltaf verið á vaktinni fyrir alþýðuna.
Sverrir sagði ASÍ vera sundurleitan hóp og að hin mikla breidd sambandsins væri um leið styrkur þess og veikleiki.
„Þegar ég byrjaði hjá AFLi [starfsgreinafélagi] var ég óþolinmóður og reiður,“ sagði hann og benti á að sjómennskan hefði ekki vanið hann á málamiðlanir eða mjúkar ræður. Árin hjá AFLi starfsgreinafélagi hefðu aftur á móti verið lærdómsrík.
Hann sagði harðan vetur fram undan og mikil þörf væri á órofa samstöðu. Það yrði ekki til með valdboði eða þvinguðum atkvæðagreiðslum. Hvatti hann fundargesti til sátta og til að leggja ágreining til hliðar.