Segir rafrænar kosningar spara ASÍ fúlgur

Frá þingi ASÍ.
Frá þingi ASÍ. mbl.is/Árni Sæberg

„Rafræna kerfið leysir meðal annars af hólmi dýrar bréfsendingar með kjörseðlum og umslögum sem áður voru sendar til félagsmanna,“ er haft eftir Magnúsi M. Norðdahl, deildarstjóra lögfræðideildar ASÍ, í tilkynningu vegna nýs kosningakerfis.

ASÍ hefur í samvinnu við Advania þróað rafrænt kosningakerfi og segir sparnaðinn hlaupa á tugum milljóna. „Það er þróað til að standast ýtrustu kröfur um leynd og persónuvernd. Við erum mjög sátt við framkvæmdina,“ segir Magnús en Drífa Snædal var kjörin forseti ASÍ á þingi sambandsins í dag.

Fleiri hafa notað kerfið og verður það meðal annars notað í formanns- og stjórnarkjöri hjá Neytendasamtökunum um helgina. Fjölmennustu kosningarnar sem hafa verið framkvæmdar með rafræna kerfinu voru kosning um Salek-samkomulagið þar sem 80 þúsund félagsmenn ASÍ voru á kjörskrá. 

Sigurður Másson, deildarstjóri hugbúnaðalausna Advania, segir að rafræn kosning auðveldi alla framkvæmd. „Búseta er engin hindrun í rafrænum kosningum og þær geta staðið yfir í lengri tíma en kjörstaðir geta yfirleitt verið opnir,“ segir Sigurður. Hann bætir við að kosningakerfið auki öryggi í kosningum vegna þess að atkvæði eru dulkóðuð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka