Skólar herða reglurnar um of

Persónuvernd segir það ekki trúnaðarmál sem gerist innan veggja grunnskólans.
Persónuvernd segir það ekki trúnaðarmál sem gerist innan veggja grunnskólans. mbl.is/​Hari

„Margir skólar hafa beðið, eða hyggjast biðja, foreldra um að undirrita trúnaðaryfirlýsingu um að allt það sem þeir verði vitni að innan veggja skólans og í skólastarfinu sé trúnaðarmál.“

Þetta kemur fram í ábendingum sem Persónuvernd hefur sent frá sér vegna nýju persónuverndarlaganna. Þetta á sér enga stoð í lögunum að mati Persónuverndar sem telur það vart standast landslög að skólar geti krafist þess að einstaklingar sem eru gestkomandi í skólum afsali sér rétti til að ræða þau mál sem tengjast skólastarfinu sín í milli eða við aðra.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að komið hafi í ljós dæmi um að sumir grunnskólar og leikskólar hafi brugðist við nýjum lögum um persónuvernd með því að setja sér strangari reglur um persónuvernd en krafist er í lögunum. Að mati Persónuverndar virðist sem misskilnings gæti víða í skólasamfélaginu um til hvaða aðgerða þurfi að grípa til að skólastarf samrýmist lögunum.“

Þau tilvik sem upp hafa komið varða m.a. herta aðgangsstýringu að skólum, trúnaðaryfirlýsingar, myndatökur og afhendingu nafnalista í skólum o.fl. Hefur Persónuvernd sent frá sér samantekt með ítarlegum ábendingum um hvort aðgerðir sem skólarnir hafa gripið til eiga sér stoð í lögunum eða ekki.

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar, segir að mjög margar ábendingar hafi borist bæði í pósti og síma. „Það fylltist allt hjá okkur af ábendingum úr mörgum áttum um að það væri verið að grípa til óþarfa aðgerða að því er virtist á grundvelli persónuverndarlaganna,“ segir hún.

Meina aðgang í skólastofur

Komið hefur á daginn að einstaka skólar hafa m.a. tekið upp aðgangsstýringu að skólum, þar sem foreldrum er meinaður aðgangur inn í skólastofur. Þetta á sér ekki stoð í persónuverndarlögum. Bendir Persónuvernd á að það geti hins vegar talist eðlilegt að skólar, líkt og aðrar stofnanir, setji sér ákveðnar verklagsreglur og viðhafi aðgangsstýringu þar sem það á við, með öryggissjónarmið að leiðarljósi.

Má afhenda foreldrum nemendalista? Á þetta hefur reynt og í einhverjum tilvikum hefur foreldrum verið neitað um að fá afhenta lista með nöfnum bekkjarfélaga barna sinna. Hér virðist vera of langt gengið að mati Persónuverndar sem bendir á að tilgangurinn með afhendingu bekkjarlista sé m.a. að efla tengsl og samstarf foreldra og aðstoða börn sín við félagslega tengslamyndun og tryggja öryggi. Afhending bekkjarlista geti talist eðlilegur hluti af starfsemi skóla ef meðalhófs er gætt. „Mikilvægt er að gæta að því við gerð slíkra lista að einstaklingar geti nýtt andmælarétt sinn skv. 21. gr. persónuverndarlaga og óskað eftir að láta fjarlægja upplýsingar um sig af listanum, hvort sem er í heild eða að hluta, segir í ábendingunum.

Persónuvernd hefur fengið vitneskju um að fjöldi skóla sé að undirbúa eða hafi þegar lokið við að afla samþykkis foreldra fyrir myndatökum af börnum. „Persónuvernd fagnar því að sú framkvæmd sé hafin enda er það í samræmi við persónuverndarlög og tilmæli stofnunarinnar,“ segir í ábendingunum en þar er þó bent á ýmis álitamál sem hafa verði í huga. M.a. þurfa skólar að veita fullnægjandi fræðslu um vinnsluna og gæta þarf að réttindum barna til friðhelgi einkalífs.

Hafa bannað myndatökur

„Í einhverjum tilvikum hefur foreldrum og forráðamönnum verið bönnuð myndataka á viðburðum á vegum skólans. Það er mat Persónuverndar að skólar, sem opinberar stofnanir, geti ekki lagt bann við því að einstaklingar taki ljósmyndir af börnum sínum enda skal það áréttað að persónuverndarlög gilda ekki um meðferð einstaklings á persónuupplýsingum sem eingöngu varða einkahagi hans eða fjölskyldu hans eða eru einvörðungu ætlaðar til persónulegra nota,“ segir í ábendingum Persónuverndar.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert