Stundin rýfur lögbann um Glitnisskjöl

Forsíða nýjasta tölublaðs Stundarinnar.
Forsíða nýjasta tölublaðs Stundarinnar.

Rúmu ári eftir að lögbann var sett á umfjöllun Stundarinnar um Glitnisskjölin heldur blaðið áfram umfjöllun sinni um málið í dag.  

Í nýjasta blaði Stundarinnar er Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, á forsíðunni undir fyrirsögninni „Bannaðar fréttir birtar“. Þar kemur fram að Glitnisskjölin sýni að Bjarni hafi leitt viðskipti Engeyinga í meira mæli en hefur komið fram og afskriftir tengdar þeim nemi 130 milljörðum króna. Einnig kemur fram að Benedikt Jóhannesson, fyrrverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sé í skjölunum. 

Lands­rétt­ur hafnaði 5. októ­ber kröfu Glitn­is HoldCo um staðfest­ingu lög­banns sem sýslumaður­inn á höfuðborg­ar­svæðinu hafði lagt á um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar og Reykja­vík Media sem byggð er á gögn­um frá Glitni banka. Lands­rétt­ur staðfesti þar með dóm Héraðsdóms Reykja­vík­ur sem hafði kom­ist að sömu niður­stöðu.

Áfrýj­un­ar­frest­ur í einka­mál­um til Hæsta­rétt­ar er fjór­ar vik­ur og á hann að renna út 2. nóv­em­ber.

Byggist á lögfræði- og siðferðilegum grunni 

Fram kemur á vef Stundarinnar að blaðið hafi ákveðið að halda umfjölluninni áfram þrátt fyrir að enn sé vika eftir af áfrýjunarfrestinum. Ákvörðunin byggist á lögfræðilegum og siðferðilegum grunni.

Fram komi í lögum um kyrrsetningu og lögbann að þegar þrjár vikur séu liðnar frá synjun dómstóla falli lögbann niður. Frá og með útgáfudegi þessa blaðs eru þessar þrjár vikur liðnar.

Stundin segist einnig byggja umfjöllunina á því að í lögbannslögum sé ekki gert ráð fyrir tilvist Landsréttar.

Varðandi siðferðislega þáttinn telur Stundin ekki réttlætanlegt að eftirláta þrotabúi gjaldþrota banka ritstjórnarvald yfir umfjöllun.

Einnig telur ritstjórn Stundarinnar „illréttlætanlegt út frá siðferðislegum sjónarmiðum“ að bíða með birtingu skjalanna þegar mikill vafi sé á því að Glitni HoldCo sé lögfræðilega stætt á því að viðhalda lögbanninu.

Stutt var til alþing­is­kosn­inga er sýslumaður staðfesti lög­banns­kröf­una, en um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar og Reykja­vík Media hafði að miklu leyti snú­ist um viðskipti Bjarna Bene­dikts­son­ar, for­manns Sjálf­stæðis­flokks­ins, við Glitni í aðdrag­anda hruns ís­lenska fjár­mála­kerf­is­ins haustið 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka