„Þetta var skrifað í skýin“

Sverr­ir Már Al­berts­son á þingi ASÍ.
Sverr­ir Már Al­berts­son á þingi ASÍ. mbl.is/Valli

„Þegar maður fer í kosningar þá vill maður vinna þær en þetta var skrifað í skýin,“ segir Sverrir Mar Albertsson, framkvæmdastjóri AFLs starfsgreinafélags, spurður hvort það hafi ekki verið vonbrigði að tapa fyrir Drífu Snædal í kosningu um embætti forseta Alþýðusambands Íslands fyrr í dag.

„Ég geng bara mjög sáttur frá. Drífa er afbragðsmanneskja og kemur til með að valda þessu vel. Hún hefur minn stuðning og traust þegar upp er staðið. Það eru engar slæmar tilfinningar í gangi.“

Sverrir Mar kveðst hafa íhugað í ágúst að bjóða sig ekki fram í embættið en fannst á sama tíma mikilvægt að nýr forseti ASÍ skyldi kosinn, þ.e. fengi mótframboð. „En að sjálfsögðu var það alltaf möguleikinn að ég ynni, þannig að ég ætla ekkert að segja að ég hafi verið að fórna mér í þetta og ótrúlegir hlutir hafa gerst í kosningum. En þetta kom mér í sjálfu sér ekki á óvart. Ég er bara mjög sáttur,“ segir hann.

Spurður hvernig hann telji að Drífu muni reiða af sem forseta ASÍ segist hann þeirrar skoðunar að félagsmenn verkalýðsfélaga og þingfulltrúar Alþýðusambandsins taki alltaf réttar ákvarðanir á þeim tíma sem þær eru teknar. „Framtíðin verður síðan að leiða í ljós hvernig hlutir þróast en já, ég hef unnið með Drífu í mörg ár og treysti henni mjög vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka