Fyrsti gróðurveggurinn í borginni

Horft til norðurs. Þessi hluti veggsins er að mestu leyti …
Horft til norðurs. Þessi hluti veggsins er að mestu leyti risinn. Gróðurinn er þó ekki kominn. Valgarður Gíslason

Eigendur verslunarkjarnans Suðurvers í Stigahlíð 45-47 hafa sótt um leyfi til að byggja ofan á húsið. Áformað er að hafa 14 íbúðir í ofanábyggingunni. Umsóknin er til meðferðar hjá Reykjavíkurborg.

Verkefninu svipar til ofanábyggingar í Skipholti 70. Þar var byggð hæð ofan á verslunar- og skrifstofuhús og innréttaðar þar íbúðir. Óskað var eftir teikningunum hjá Reykjavíkurborg en ekki tókst að afgreiða þá beiðni fyrir helgi, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.

Austan við Suðurver, meðfram Kringlumýrarbraut, hefur verið reistur hljóðveggur. Hann er austan við íbúðarhús í Stigahlíð 35-43 og gegnt Kringlusvæðinu. Áformað er að veggurinn nái fullbyggður að Stigahlíð 93.

Hámarki hljóðeinangrun

Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir hljóðvegginn hafðan sem næst íbúðarhúsunum til að hámarka hljóðeinangrun.

„Þetta er gróðurveggur. Þetta er í fyrsta sinn sem við gerum hljóðvegg í borginni. Það er í honum sérstakt undirlag sem er gert fyrir gróður. Við eigum eftir að sjá hvernig gróðurinn spjarar sig við íslenskar aðstæður. Austan við vegginn verða gangandi og hjólandi í göturýminu. Það gefur okkur möguleika á að staðsetja biðstöð Borgarlínu á þessu svæði,“ segir Sigurborg Ósk sem vísar aðspurð til þess að samkvæmt áætlunum um Borgarlínu er gert ráð fyrir biðstöð við Kringluna, austur af Suðurveri. Þær hugmyndir eru í mótun.

Reykjavíkurborg keypti fyrr á árinu hverfiskjarna í Arnarbakka 2-6 og Völvufelli 11-21 í Breiðholti. Þar er áformað að auka byggingarmagn og byggja m.a. íbúðir.

Sigurborg Ósk segir aðspurð að endurnýjun hverfiskjarna sé hluti af þéttingu byggðar. „Þessir kjarnar eru langflestir á einni hæð. Það er verið að skoða hvort hægt er að bæta við einni hæð eða tveimur, allt eftir því hvað hæfir umhverfinu, til þess að efla verslun og blása lífi í þessa kjarna aftur,“ segir hún.

Nefna mætti fleiri verkefni af þessum toga í borginni. Til dæmis hugmyndir um að byggja íbúðir ofan á verslunarhæðir í Norðurbrún 2 og Rofabæ 39.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka