Konur 21% stjórnenda í efsta lagi

Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu.
Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu. Ljósmynd/Hrafnhildur Hafsteinsdóttir

Ný könn­un sem Fé­lag kvenna í at­vinnu­líf­inu lét gera meðal fyr­ir­tækja sem farið hafa í jafn­launa­vott­un og/​eða eiga að hafa klárað jafn­launa­vott­un fyr­ir lok árs 2018, gef­ur vís­bend­ingu um að hlut­fall kvenna í efsta stjórn­enda­lagi fyr­ir­tækja hér á landi sé 21%.

Rakel Sveins­dótt­ir fram­kvæmda­stjóri FKA seg­ir í sam­tali við Morg­un­blaðið að þetta hlut­fall sé alltof lágt, og í miklu ósam­ræmi við til dæm­is töl­ur um þá sem út­skrif­ast með há­skóla­próf hér á landi, en kon­ur eru þar í meiri­hluta.

„Þarna er eitt­hvert ósam­ræmi sem þarf að laga. Þessi könn­un sem við gerðum er skýr vís­bend­ing um það,“ seg­ir Rakel.

Ráðstefna í næstu viku

FKA stend­ur fyr­ir ráðstefn­unni Rétt upp hönd á Hót­el Reykja­vík Nordica næsta miðviku­dag en fé­lagið hef­ur ásamt sam­starfsaðilum úr vel­ferðarráðuneyt­inu, Sjóvá, Deloitte, Morg­un­blaðinu og Pip­ar/​TBWA sett af stað hreyfiafls­verk­efnið Jafn­væg­is­vog­ina. Mark­mið Jafn­væg­is­vog­ar­inn­ar er að árið 2027 verði hlut­fallið á milli kynja 40/​60 í fram­kvæmda­stjórn­um fyr­ir­tækja á Íslandi.

Rakel seg­ir að þegar FKA hafi fyrst byrjað að beita sér fyr­ir kynja­kvóta í stjórn­um fyr­ir­tækja árið 2009, sem í dag kveður sam­kvæmt lög­um á um 40% lág­marks­hlut­fall hvors kyns, þá hafi hún raun­veru­lega trúað því að það myndi leiða til sam­bæri­legs kynja­hlut­falls í efsta lagi stjórn­endat­eyma fyr­ir­tækja. „Við sjá­um núna að það hef­ur alls ekki orðið raun­in. Könn­un­in sýn­ir líka að það er raun­veru­leg þörf á að afla frek­ari gagna um þetta.“

Rakel seg­ir að helsta ástæða þess að fyrr­nefnd könn­un hafi verið gerð sé sú að FKA hafi verið í vand­ræðum með að afla gagna til að gera nógu góða töl­fræði um þenn­an þátt í rekstri fyr­ir­tækja. Gögn­in séu hvergi til. Hún nefn­ir til dæm­is að í fyr­ir­tækja­skrá og á hlut­hafal­ist­um sé getið um stjórn­ar­menn og prókúru­hafa, en ekki um fólk í efsta stjórn­enda­lag­inu. Eina leiðin í dag til að fá yf­ir­sýn yfir þetta sé ein­fald­lega að hringja í hvert og eitt fyr­ir­tæki.

Blönduð teymi ná meiri ár­angri

Rakel seg­ir að ástæða þess að FKA sé að beita sér jafn ákveðið í þessu og raun ber vitni sé sú að öll gögn og rann­sókn­ir styðji það að þegar blönduð teymi karla og kvenna séu í fyr­ir­tækj­um, þá nái fyr­ir­tæk­in hrein­lega betri ár­angri. „Það er líka svo sorg­leg sóun á mannauði að vera að mennta all­ar þess­ar kraft­miklu ungu kon­ur, en hleypa þeim ekki til meiri áhrifa í fyr­ir­tækj­un­um. Við erum með eitt­hvert hæsta hlut­fall kvenna á at­vinnu­markaði í heimi. Þetta slag­orð okk­ar á ráðstefn­unni, Rétt upp hönd, er bæði hvatn­ing til kvenna að gera sig sýni­legri inn­an fyr­ir­tækja og einnig hvatn­ing til karl­manna og karl­stjórn­enda að horfa í kring­um sig á kon­urn­ar sem eru til staðar, og velta al­var­lega fyr­ir sér hvort það séu ekki fleiri kon­ur sem sann­ar­lega ættu skilið að fá tæki­færi.“

Fjöru­tíu fyr­ir­tæki eru að sögn Rakel­ar búin að skuld­binda sig til að skrifa und­ir yf­ir­lýs­ingu á ráðstefn­unni í næstu viku um að fara í það verk­efni með Jafn­væg­is­vog­inni að ná auknu jafn­vægi inn­an sinna vé­banda, og þá sér­stak­lega fyr­ir­tæki sem eru frek­ar karllæg eða með karl­kyns stjórn­end­ur. „Fyr­ir­tæki geta þarna sýnt það í verki að þau hafi áhuga á að kom­ast lengra í þess­um efn­um. Þau geta skráð sig, tekið þátt, og fengið þá góð ráð um hvaða leiðir er hægt að fara.“

Umræður um laga­setn­ingu

Spurð að því hvort laga­setn­ing sé til umræðu, lag­ist hlut­irn­ir ekki í efri stjórn­enda­lög­um fyr­ir­tækja, seg­ir Rakel að enn sem komið er sé látið nægja að búa til leiðir eins og Jafn­væg­is­vog­ina til að rétta hlut kvenna. „En ég get lofað því að ef töl­urn­ar fara að sýna okk­ur það eft­ir til dæm­is tíu ár, að ekk­ert er að breyt­ast, þá fer tónn­inn að breyt­ast. Ég hef tekið eft­ir því bæði hér á landi og er­lend­is, að radd­ir sem kalla eft­ir laga­setn­ingu um þessi mál, eru byrjaðar að heyr­ast.“

Lög um kynja­kvóta í stjórn­um fyr­ir­tækja með yfir 50 starfs­menn voru sett árið 2010 og tóku þau gildi árið 2013. Lög­in gera ráð fyr­ir því að hlut­fall hvors kyns í stjórn­inni skuli vera að minnsta kosti 40% í lok árs­ins 2013. Að sögn Rakel­ar þá var hlut­fall kvenna orðið 33% í stjórn­um fyr­ir­tækja með yfir 50 starfs­menn eða fleiri árið 2013, en hef­ur staðið í stað síðan lög­in tóku gildi.

Rakel bend­ir á að í vik­unni hafi alþing­ismaður­inn Lilja Raf­ney Magnús­dótt­ir og meðflutn­ings­menn úr öll­um flokk­um lagt fram frum­varp á Alþingi um dag­sekt­ir á þau fyr­ir­tæki sem ekki eru að upp­fylla lög­in. „Við fögn­um því mjög. Þarna er hún að fylgja eft­ir til­lög­um FKA“

Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Nán­ar um málið
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert