Rjúpnaveiðitíminn hófst í gær og hefur farið vel af stað að sögn Áka Ármanns Jónssonar, formanns Skotvís, skotveiðifélags Íslands. „Mér heyrist að menn hafi farið eftir ráðleggingum og veitt hóflega. Mér sýnist allir hafa fengið eitthvað, tvær og upp í tíu rjúpur, þeir sem fengu mest,“ segir Áki í samtali við mbl.is, en hann ákvað sjálfur að bíða aðeins með að fara á fjöll.
Veiðidögum rjúpu var fjölgað úr tólf í fimmtán, rétt áður en veiðitíminn hófst, og er því leyfilegt að veiða næstu fimm helgar. Segir Áki að almenn sátt ríki um það, þó svo að Skotvís hafi farið fram á átján daga. „Mér heyrist það á fólki að það sé ánægt að fá eitthvað, en sumir eru óánægðir með að tímabilið sé ekki alveg opið. Við tökum veturinn í að ræða þau mál, það verður sett af stað vinna til að ákveða þessi mál til framtíðar.“
Ágætlega hefur viðrað á rjúpnaskyttur það sem af er helgi en spáð er versnandi veðri með kvöldinu, sérstaklega fyrir norðan og vestan. „Ég held að þeir hafi fengið alla flóruna af íslensku veðri í gær og í dag. Ég sá menn í byl og aðra sem voru á auðri jörð og allt þar á milli,“ segir Áki.
Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að rjúpnaskyttur ættu að koma sér snemma heim í dag þar sem von er á hríð á fjallvegum á Vestur- og Norðurlandi og á Vestfjörðum.
Gul viðvörun er í gildi á Breiðafirði, miðhálendinu, Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra.
„Menn eru væntanlega að þessu í björtu og það er ágætisverður í dag en menn ættu ekki að vera fram á kvöld á vestanverðu landinu og drífa sig tímanlega heim, bara af því að það bætir smám saman í vindinn síðdegis í dag,“ segir Teitur í samtali við mbl.is. Þá segir hann mesta farartálmann vera snjókomu á fjallvegum, en rigna mun á láglendi með almennu hvassviðri eða stormi.