Borgarráð Reykjavíkur vísaði á fundi sínum á fimmtudaginn til borgarstjórnar erindi Félagsbústaða hf. um að borgarstjórn veiti Lánasjóði sveitarfélaga veð í útsvarstekjum borgarinnar til tryggingar á ábyrgð á lántöku, andvirði eins milljarðs króna.
„Okkur finnst margt vera að. Það kom fram í úttekt Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar mikil framúrkeyrsla og fleira og til þess að fjármagna þessi mál þurfa Félagsbústaðir meira fé, en virðast ekki geta fjármagnað sig auðveldlega.
Þá er gripið til þess ráðs að Reykjavíkurborg veiti veð í útsvarstekjum sínum, sem er það allra heilagasta sem borgin á. Borgin er þá algjörlega ábyrg fyrir láninu, en það hvílir nú þegar 35 milljarða skuld á þessu dótturfélagi borgarinnar,“ segir Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins, í Morgunblaðinu í dag.