Einherjar með stórsigur á þýskum gestum

Hart var tekist á í Kórnum í gær. Einherjar gersigruðu …
Hart var tekist á í Kórnum í gær. Einherjar gersigruðu gesti sína. Ljósmynd/Aðsend

Íslenska ruðningsliðið Einherjar vann stórsigur, 50-0, á þýska liðinu Köln Falcons í Kórnum á gærkvöldi. 50-0 sigur í ruðningi, amerískum fótbolta, er á við 5-0-sigur í fótbolta.

Bergþór Pálsson, leikstjórnandi (e. quarterback) Einherja, er hæstánægður með árangurinn. Sigurinn er fimmti sigur liðsins á alþjóðavettvangi. „Við erum klárlega á réttri leið. Við erum að reyna að sanna okkur til að komast inn í milliríkjadeildir í Evrópu og það gengur bara vel,“ segir Bergþór.

„Leikurinn gekk vonum framar,“ segir hann jafnframt en keppinauturinn frá Köln var að fara upp í aðra deild í ruðningi í Þýskalandi. Deildin þar er sú sterkasta í Evrópu. Bergþór viðurkennir að það kunni að hafa spilað inn í að í þýska liðið vantaði nokkra lykilmenn.

Bergþór Pálsson leikstjórnandi kastaði þremur snertimörkum (e. touchdown). Viðar Gauti greip tvö snertimörk og Luke Wildung eitt. Ingi Þór Kristjánsson hljóp inn eitt snertimark. Í hálfleik léku listir sínar Valkyrjur, klappstýrulið Einherja.

„Við erum að spila næsta leik strax núna á laugardaginn í Akraneshöllinni. Vonum að það fari vel og ég efast ekki um að það verði spennandi leikur,“ segir Bergþór. Þar etja Einherjar kappi við sænska liðið Tyreso Royal Crowns. Leikur sá hefst klukkan 16.

Bergþór Pálsson leikstjórnandi hefur til lofts ílangan knöttinn. Hann kastaði …
Bergþór Pálsson leikstjórnandi hefur til lofts ílangan knöttinn. Hann kastaði þremur snertimörkum og hljóp til að skora tvö til viðbótar. Ljósmynd/Aðsend
Styrmir Már Ólafsson „linebacker“, sá sem stelur boltanum í vörn, …
Styrmir Már Ólafsson „linebacker“, sá sem stelur boltanum í vörn, rækir skyldu sína á vellinum. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert