„Við erum búin að reyna að fara góðu leiðina,“ segir Guðbergur Reynisson. Hann hefur í nokkur ár, ásamt fleirum, þrýst á yfirvöld að klára tvöföldun Reykjanesbrautar og ætlar hópurinn í vikunni að standa fyrir því að brautinni verði lokað. Það er gert til að mótmæla hægagangi við tvöföldun.
„Eina leiðin til að ná eyrum ráðamanna er að gera eitthvað róttækt. Við erum búnir að reyna að fara allar leiðir í að spjalla við menn og mæta á fundi,“ segir Guðbergur. Hann bendir á að tvöföldun Reykjanesbrautar hafi verið sett á 15 ára áætlun á síðustu samgönguáætlun.
„Það þykir mér út í hött,“ segir Guðbergur og bætir við að kaflinn frá gamla kirkjugarðinum í Hafnarfirði að Hvassahrauni, þar sem tvöföldun hefst, sé einn hættulegasti vegkafli landsins.
Banaslys varð á Reykjanesbraut, til móts við Vallahverfið í Hafnarfirði, á sjötta tímanum í morgun í hörðum árekstri á milli jepplings og fólksbifreiðar. Rúv greindi frá því síðdegis að hinn látni var erlendur ferðamaður en það hefur ekki fengist staðfest hjá lögreglu.
Guðbergur tekur fram að kaflinn frá afleggjaranum að Kaldárseli að Rauðhellu sé kominn á samgönguáætlun en það sé engan veginn nóg. „Á ég þá að bíða þar til það verður banaslys vestan við álverið til að segja eitthvað? Hversu mörg banaslys þarf til að eitthvað gerist?“
Hann segist ekki ætla að auglýsa aðgerðirnar, ekki strax í það minnsta. Ef til vill muni hann ekki gera það til að áhrifin verði sem mest. „Þetta virðist vera eina leiðin, að loka brautinni þannig að fólk verði fyrir töfum og allir finni fyrir því.“