Á árunum 2009-2017 varði Reykjavíkurborg samtals um 5,3 milljörðum (miðað við verðlag 2018) í langtímaveikindi starfsmanna, aðeins á skóla- og frístundasviði. Þetta kom fram í svari sviðsins við fyrirspurn Sósíalistaflokks á fundi borgarráðs á fimmtudag.
Útgjöld þessi hafa aukist hér um bil jafnt og þétt frá því 2009. Árið 2009 fóru um 280 milljónir í málaflokkinn (508 milljónir miðað við verðlag 2018) en árið 2017 voru það 650 milljónir.
Á fyrstu sex mánuðum ársins 2018 nam kostnaðurinn 357 milljónum, 62 milljónum umfram fjárheimild á því tímabili. Ef næstu sex mánuðir eru eins verður kostnaðurinn um 700 milljónir fyrir 2018.
Á fimmtudaginn lagði mannauðsdeild Reykjavíkurborgar fram svar við fyrirspurn Sósíalistaflokks um þessi mál. Í fyrirspurninni var spurt út í hver útgjöldin í þessum málaflokki hafi verið og jafnframt spurningum velt fram um mögulegar ástæður fyrir þessum síauknu útgjöldum.
Mannauðsdeild borgarinnar svaraði með því að tína til ýmis átök sem deildin hefur ráðist í á undanförnum árum til að bæta heilsu starfsfólks almennt. Þá hengdi hún við öllu lengri umsögn frá sjálfu skóla- og frístundasviði, sem útlistar hvernig tekið er á svona málum innan þess sviðs.
Skóla- og frístundasvið segir í þeirri umsögn að mikil vinna hafi þegar átt sér stað til að sporna við þessari þróun. Í því sambandi er lögð áhersla á innleiðingu QlikView-viðverukerfis, sem gefur nákvæmari gögn um viðveru starfsfólks. Ekki er þó að sjá að útgjöld vegna langtímaveikinda hafi minnkað frá innleiðingu þess kerfis.
Þá er gengist við því í skýrslunni að af starfsmönnum Reykjavíkurborgar eru einna óánægðastir í starfi þeir sem vinna á skóla- og frístundasviði. Fyrr á þessu ári mældist sviðið með 3,46 af 5 mögulegum í könnun meðal starfsfólks. Aðeins tvö svið borgarinnar fá lægri einkunn.