Nýkjörinn formaður Neytendasamtakanna segir að þau verði að gera starf sitt sýnilegra. Um 9.000 mál komi á borð samtakanna árlega. Breki Karlsson tók við formennsku í Neytendasamtökunum á þingi þess um helgina.
„Mín helstu áherslumál eru að efla innra starf. Við þurfum að efla faglegheit, byggja alla okkar vinnu á gögnum og í því skyni þurfum við að efla neytendarannsóknir,“ sagði Breki í samtali við mbl.is eftir að honum var fagnað sem nýjum formanni.
429 tóku þátt í kosningum til formanns af 539 sem voru á kjörskrá. Breki hlaut 53% atkvæða, Unnur Rán Reynisdóttir 21%, Ásthildur Lóa Þórsdóttir 19% og Guðjón Sigurbjartsson 7%. Samtökin höfðu verið formannslaus frá því Ólafur Arnarsson sagði af sér í júlí í fyrra eftir harðar deilur við stjórn samtakanna.
„Við þurfum að efla miðlun og gera starfið sýnilegra en það hefur verið. Það gera sér kannski fáir grein fyrir því en það eru 9.000 mál sem koma á borð Neytendasamtakanna á hverju ári. Það sem við getum gert í því er að segja frá því sem við gerum,“ sagði Breki. Hann sagði að hægt væri að efla neytendafræðslu í sjónvarpi eða útvarpi.
„Það eru mýmörg tækifæri sem okkur ber að grípa.“
Breki hefur undanfarinn áratug unnið að neytendamálum sem forstöðumaður Stofnunar um fjármálalæsi. Hann segir að fjármál einstaklinga séu tvímælalaust eitt stærsta neytendamálið.
Breki segir að samtökin sinni öflugu starfi miðað við stærð og það þurfi að gera þau enn sýnilegri til að fólk sjái sér hag í að vera í Neytendasamtökunum. „Við látum í okkur heyra 9.000 sinnum á ári.“
Spurður hvort það sé okur á Íslandi svarar Breki því til að það sé dýrtíð á Íslandi. „Við borgum hæstu húsnæðisvexti í heimi. Við borgum þremur til fjórum prósentum hærri húsnæðisvexti en frændur okkur og frænkur í Færeyjum. Ef meðalheimili skuldar 12 milljónir í húsnæðislán þá erum við að tala um 400.000 til 500.000 krónur á ári sem við borgum í hærri vexti en fólk í Færeyjum. Þetta getum við ekki unað við,“ segir Breki og heldur áfram:
„Í málefnaskrá samtakanna stendur að við ætlum að þrýsta á stjórnvöld um að lækka þessa vexti og við munum vinna að því með hverjum þeim hætti sem hægt er.“