Dregur sekt Thomasar Møller Olsen í efa

Thomas Møller Olsen gengur í dómsal í Landsrétti í dag. …
Thomas Møller Olsen gengur í dómsal í Landsrétti í dag. Mál hans hefur nú verið lagt í dóm. mbl.is/Árni Sæberg

Björgvin Jónsson, skipaður verjandi Thomasar Møller Olsen fyrir Landsrétti, sagði í munnlegum málflutningi sínum að „uppleggið hjá ákæruvaldinu“ og þeim sem rannsökuðu morðið á Birnu Brjánsdóttur hefði verið að þar sem Thomas hefði eytt tíma í að þrífa Kia Rio-bílaleigubílinn, hlyti hann að vera sekur.

Hann dró það í efa og sagði það í „besta falli ólíklegt“, að andlát Birnu hefði getað orðið með þeim hætti sem ákæruvaldið vildi meina. Hann bað dóminn um að hugsa sérstaklega um það, að blóð hefði hvorki fundist á stýri né gírstöng bílaleigubílsins, þrátt fyrir að það lægi fyrir í gögnum málsins að árásarmaðurinn hlyti að hafa verið blóðugur á annarri hendi, ef ekki báðum.

„Hvað segir það okkur? Ákærði getur ekki hafa ráðist að brotaþola. Árásarmaðurinn getur ekki verið sá sami og ók bifreiðinni,“ sagði verjandinn og hélt áfram að teikna upp þá mynd að Nikolaj Olsen væri mögulega og líklega sekur um að hafa ráðið Birnu bana, eins og sakborningurinn Thomas hefur reynt frá því í ágúst í fyrra er hann gjörbreytti framburði sínum fyrir Héraðsdómi Reykjaness.

Hann sagði einnig að leggja bæri framburð Nikolajs og stórs hluta grænlensku skipverjanna alveg til hliðar í málinu, þar sem þeir væru ótrúverðugir. „Nikolaj segist ekkert muna þegar kemur að atriðum sem einhverju máli skipta og framburðir margra vitnanna eru þannig að þeir markast af því að þeir segjast ekkert muna og vilja sem minnst segja, það skín alveg í gegn, kannski af ótta við að vera bendlaðir við hassið um borð. Ég held að það gefi nú auga leið að það voru fleiri en ákærði sem vissi af því,“ sagði Björgvin.

Áverkar á hnúum og myndir af Instagram

Björgvin ræddi um áverka á hnúum Nikolaj Olsen og mat læknis, sem bar vitni fyrir héraðsdómi og taldi að áverkarnir hefðu hlotist helgina sem Birnu var ráðinn bani. Þá nefndi hann að í myndskeiði frá Hafnarfjarðarhöfn, sem sýnir Nikolaj ganga upp landganginn í Polar Nanoq að morgni laugardagsins, notist hann einungis við aðra höndina til að toga sig upp landganginn. Verjandinn velti því upp hvort mögulega hafi hin höndin verið sár, er Nikolaj hélt ölvaður um borð í skipið.

Grænlenski togarinn Polar Nanoq við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í febrúar …
Grænlenski togarinn Polar Nanoq við bryggju í Hafnarfjarðarhöfn í febrúar 2017. Verjandinn telur framburði skipverjanna ótrúverðuga. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Verjandinn sagði vafa liggja fyrir um það hvort sú úlpa sem Nikolaj hefði sést í þetta kvöld á myndbandi úr eftirlitsmyndavél á skemmtistaðnum English Pub í Austurstræti væri sú sama og hann hefði klæðst er hann sást fara um borð í Polar Nanoq að morgni. Gaf hann í skyn að mögulega hefði hann skipt um fatnað eftir atlögu gegn Birnu, en ekkert blóð fannst á fatnaði í eigu Nikolaj við rannsókn lögreglu.

Einnig aflaði verjandi tveggja mynda af Instagram-síðunni hjá unnustu Nikolaj Olsen til þess að sýna fram á að ekki væri hægt að byggja á því í málinu að Nikolaj hefði ekki öðlast ökuréttindi, þar sem hann gæti kunnað að aka bíl þrátt fyrir það. Önnur myndin ku sýna Nikolaj í bíl og hin sýnir hann við stýrið á báti. Það hefur sumsé ýmislegt verið tínt til.

En hvar var Møller Olsen?

Þau atriði sem hér er fjallað um að ofan eru einungis nokkur dæmi um það sem verjandinn fór yfir í málflutningsræðu sinni. Ýmsum öðrum spurningum var velt upp í ræðu hans, sem stóð í hartnær tvær klukkustundir hér í Landsrétti í kvöld.

Ekkert var þó komið inn á það í ræðu lögmannsins, hvar skjólstæðingur hans var staddur á milli kl. 7 og 11:05 að morgni laugardagsins 14. janúar 2017. Um það er sakborningurinn enn þögull sem gröfin, nú þegar aðalmeðferð í Landsrétti er lokið og mál hans hefur verið lagt í dóm öðru sinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert