„Ég er að reyna að átta mig á því hvað er í gangi,“ eru fyrstu viðbrögð Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, vegna fréttar um að Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hafi óskað eftir því við forsætisnefnd Alþingis að hún rannsaki sérstaklega endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar Ásmundar.
„Ég var að heyra þetta rétt áðan,“ segir Ásmundur og bætir því við að hann fagni því að sannleikurinn komi í ljós, þótt honum þyki svona umfjöllun leiðinleg. „Ég hef ekki neitt að fela.“
Björn hafði áður sent slíkt erindi til nefndarinnar en því var vísað frá á þeim forsendum að enginn þingmaður væri tilgreindur þar. Björn segir á Facebook-síðu sinni að þannig verði að minnsta kosti framkvæmd rannsókn á einum þingmanni.
„Það hlýtur að koma í ljós það sem forseti þingsins hefur sagt að það hafi ekkert verið neitt athugavert við akstursbækur mínar,“ segir Ásmundur.
Í færslu sinni vísar Björn í að fólk sem Ásmundur hafi ekið til fundar hafi haft samband við sig og véfengt það að umræddir fundir uppfyltu skilyrði þess að geta talist endurgreiðanlegur starfskostnaður.
„Ég veit ekki hvort fólk hefur slíkt samband við hann,“ segir Ásmundur þegar hann er spurður um það. „Ég er auðvitað ekkert að bera það undir fólk hvort ég skrifi í akstursbókina þegar ég hitti það. Það veit enginn neitt um það.“