Sérhæfðir læknar, hjúkrunarfræðingar og næringarfræðingar munu fræða gesti og gangandi í Kringlunni í dag um hvernig hægt sé að fyrirbyggja slag eða heilablóðfall.
Framtakið er á vegum Heilaheilla, í tilefni af Alþjóðlega slagdeginum. Rík áhersla er lögð á að almenningur þekki einkenni slags, en skjót viðbrögð geta skipt sköpum hvað varðar batalíkur eftir áfallið, segir Þórir Steingrímsson, formaður Heilaheilla í Morgunblaðinu í dag.
„Við munum aðeins vera að „trufla“ fólk og segja því hvaða áhættuþættir geta valdið slagi. Þá er ekki síst verið að tala um rétta næringu.“ Aðalyfirskrift dagsins er því: „Getum við gert eitthvað til þess að koma í veg fyrir slag?“