Lögreglan handtók nú fyrir stuttu tvo karlmenn í útibúi Landsbankans í Borgartúni. Voru mennirnir, sem voru viðskiptavinir bankans, leiddir út í handjárnum, en þeir eru grunaðir um fjármálabrot. Lögreglan staðfestir hins vegar að þeir séu ekki grunaðir um tilraun til ráns.
Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, vildi í samtali við mbl.is ekki greina frá því hvaða brot mennirnir væru grunaðir um og vísaði til rannsóknarhagsmuna. Þó gat hann sagt að það tengdist ekki ráni eða hótunum í bankanum sjálfum.
Sagði hann að meintur ólögmætur verknaður hafi hins vegar farið fram í bankanum og staðfesti að um væri að ræða fjármálabrot. Vildi hann ekki greina frá því hvort málið teygði sig til fleiri landa en Íslands, en mennirnir eru báðir erlendir ríkisborgarar.