Vill láta rannsaka Ásmund

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, hefur óskað eftir því við forsætisnefnd Alþingis að hún rannsaki sérstaklega endurgreiðslur vegna aksturskostnaðar Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins. Björn hafði áður sent slíkt erindi til nefndarinnar en því var vísað frá á þeim forsendum að enginn þingmaður væri tilgreindur þar. 

Björn segir á Facebook-síðu sinni að þannig verði að minnsta kosti framkvæmd rannsókn á einum þingmanni. Ástæðan fyrir því að hann beini spjótum sínum að Ásmundi sé annars vegar sú að hann hafi verið með langhæsta aksturskostnaðinn og í annan stað vegna þess að fólk sem hann hafi ekið til fundar við hafi haft samband við sig og véfengt það að umræddir fundir uppfyltu skilyrði þess að geta talist endurgreiðanlegur starfskostnaður.

Rifjar Björn upp að Ásmundur hafi sagt að Píratar hafi sakað hann um þjófnað og lygar án þess að þurfa að bera ábyrgð á þeim ásökunum. Björn segir að enginn þingmaður Pírata hafi sakað hann um þjófnað og lygar „fyrr en núna.“ Þar til nú hafi það verið ósatt.

Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Ásmundur Friðriksson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert