21% telur líkur á að missa húsnæðið

Reykjavík.
Reykjavík. mbl.is/Hjörtur

Rúmlega 20% leigjenda á Íslandi telja frekar eða mjög líklegt að þau missi húsnæðið sitt. Þeir sem leigja af einstaklingi á almennum markaði telja líklegra en aðrir að þeir missi húsnæðið sitt.

Þetta kemur fram í nýrri könnun sem leigumarkaðsdeild Íbúðalánasjóðs lét framkvæma og náði til handahófskennds úrtaks leigjenda af landinu öllu.

Niðurstöðurnar verða kynntar í dag á húsnæðisþingi Íbúðalánasjóðs og velferðarráðuneytisins á Hilton Reykjavík Nordica, að því er segir í fréttatilkynningu.

Algengast er að leigjendur leigi af einstaklingi á almennum markaði, eða 35%. Tæpur fjórðungur leigir af ættingjum og vinum og 16% leigja af einkareknu leigufélagi.

8% vilja vera á leigumarkaði

Aðeins 8% leigjenda sögðust vilja vera á leigumarkaði og langflestir, eða 86% leigjenda, vilja búa í eigin húsnæði. Þrátt fyrir þetta telja aðeins 40% öruggt eða líklegt að þau kaupi sér sitt eigið húsnæði næst þegar skipt er um húsnæði.

Þegar leigjendur voru spurðir hvers vegna þeir byggju ekki í eigin húsnæði var algengasta svarið að þeir hefðu ekki efni á því. Næstalgengasta svarið var að þeir ættu ekki fyrir útborgun og því næst að fasteignaverð væri of hátt.

Flutt 3,8 sinnum á 10 árum

Niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að leigjendur hafa að meðaltali flutt 3,8 sinnum á síðustu 10 árum og 1,6 sinnum á síðustu þremur árum. Þeir sem eru með lægstu tekjurnar hafa flutt oftast. Algengast er að leigusamningar séu í upphafi 1 til 2 ár að lengd. Einungis 3% leigjenda eru með ótímabundinn samning. 

Tæplega helmingur leigjenda sér fáa eða enga kosti við það að leigja. Þegar þeir voru spurðir um helstu gallana við að leigja nefndu 72% háa leigu. Nær allir, eða 92%, sögðust telja óhagstætt að leigja íbúðarhúsnæði á Íslandi. Aðeins 3% leigjenda telja það hagstætt en í sams konar könnun velferðarráðuneytisins fyrir þremur árum töldu 5% það hagstætt.

Auðvelt fyrir 40% að finna húsnæði

Leigjendur voru spurðir hversu auðvelt eða erfitt þeir hefðu áttu með að verða sér úti um núverandi húsnæði. Niðurstöðurnar sýna að rúmlega 40% leigjenda áttu auðvelt með að fá húsnæði og hlutfallið hækkar frá síðustu mælingu sem var gerð fyrir þremur árum þegar 26% leigjenda sögðust eiga auðvelt með það.

Leigjendum í sterkari fjárhagsstöðu fannst marktækt auðveldara að verða sér úti um húsnæðið sem það býr í en leigjendum í veikari fjárhagsstöðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert