Héraðssaksóknari hefur gefið út ákæru á hendur tveimur konum sem mótmæltu brottvísun nígeríska hælisleitandans Eze Okafor um borð í flugvél Icelandair í maí 2016. Samkvæmt ákærunni, sem þingfest var í gær, eru konurnar ákærðar fyrir brot gegn almennum hegningarlögum og lögum um loftferðir.
Vélin var á leið til Stokkhólms er konurnar stóðu upp og kölluðu yfir farþega og áhöfn að lögregla væri að flytja Okafor, sem staddur var í vélinni, ólöglega úr landi. Hvöttu konurnar aðra farþega til að standa upp og hlýða ekki fyrirmælum áhafnar með það fyrir augum að tefja brottför vélarinnar, þannig að Eze yrði færður úr flugvélinni áður en til flugtaks kæmi.
Myndskeið af mótmælunum var síðan birt á Facecook-síðu samtakanna No Borders Iceland.
Þá dreifðu konurnar einblöðungi um málið meðal farþega, og „fóru ekki að fyrirmælum flugverja um að láta af háttseminni og létu ekki af henni fyrr en þær voru handteknar af lögreglumönnum sem kallaðir höfðu verið til aðstoðar,“ að því er segir í ákærunni.
Eru konurnar sagðar með háttsemi sinni hafa reynt að að tálma því að lögreglumennirnir sem höfðu þá skyldu að framfylgja ákvörðun Útlendingastofnunar um brottvísun Eze, gætu gegnt því starfi og þá hafi þær raskað öryggi flugvélarinnar.