Fór í gegnum gryfju og fótbrotnaði

Frá fimleikasýningu í Garðabæ. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá fimleikasýningu í Garðabæ. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli

Stúlka fótbrotnaði á æfingu fimleikadeildar Stjörnunnar síðasta vor þegar hún fór í gegnum gryfju í fimleikasal félagsins og lenti með fæturna á botninum.

Þetta kemur fram í bréfi fimleikadeildarinnar og Ungmennafélags Stjörnunnar til bæjarráðs Garðabæjar þar sem óskað er eftir fjármagni til áhaldakaupa með hliðsjón af slysahættu og öryggisstöðlum.

„Stórhættuleg“ gryfja

Fram kemur að svamp vanti í umrædda gryfju í fimleikasalinn í Ásgarði en hún er nauðsynleg við allar æfingar í fimleikum og því mikið notuð. Einnig eru hún vinsælasta áhaldið þegar skólar koma í fimleikasalinn. „Staðan er sú að gryfjan er orðin stórhættuleg því of fáir svampkubbar eru í gryfjunni og iðkendur sem gera stór stökk eru að lenda með lappirnar í botninum,“ segir í bréfinu. Bent er á að til að geta boðið upp á öruggar æfingar þurfi fleiri svampkubba í gryfjuna til að hún standist öryggiskröfur.

Í bréfinu segir að 702 börn og fullorðnir á aldrinum 2 til 28 ára æfi í fimleikadeild Stjörnunnar, auk þess sem fjölmargir skólar og leikskólar nýti húsið daglega. „Mikil notkun og nýting á íþróttamannvirki eins og hér er lýst kalla óhjákvæmilega á örari endurnýjum áhalda til að standast þá öryggisstaðla og sporna við slysum sem væru eiganda mannvirkisins tryggingaskyld. Gífurleg notkun leiðir til þess að endurnýja þarf áhöld örar til að standast öryggisstaðla.“

Frá Íslandsmótinu í hópfimleikum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Frá Íslandsmótinu í hópfimleikum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Hlaupakubbarnir „slysagildra“

Auk þess að óska eftir fleiri svampkuppbum er óskað eftir nýjum hlaupakubbum, þar sem núverandi hlaupakubbar séu „slysagildra“. „Franskur rennilás sem heldur kubbunum saman er rifinn á mörgum stöðum eða vantar, því er mikil hætta á að iðkendur misstígi sig,“ segir í bréfinu, þar sem fram kemur að iðkendur í meistaraflokkum og 1. flokki geti ekki æft fyrir mót með viðunandi búnað því þeir geti ekki notað kubbana.

Dýnurnar í salnum eru einnig sagðar illa farnar. Þær haldist ekki lengur saman og valdi slysahættu hjá iðkendum sem stígi ofan í holurnar á svæðinu.

„Í jafn öflugu og sterku fimleikafélagi og Stjarnan er, er nauðsynlegt að búnaðurinn í salnum sé á pari við önnur stór fimleikafélög. Við eigum ríkjandi Norðurlanda-, bikar- og Íslandsmeistara í meistaraflokki í hópfimleikum og áttum 31 fulltrúa í landsliðinum fjórum sem fóru á EM og stóðu sig frábærlega. Til þess að viðhalda þessum árangri þurfum við að hafa flotta fimleikahúsið okkar með bestu mögulegu áhöldum hverju sinni. Það er því ósk fimleikadeildar Stjörnunnar að húsið og búnaðir þess verði viðhaldið og áhöld sem eru ónýt vegna mikillar notkunar verði endurnýjuð.“

Bæjarráð Garðabæjar vísaði bréfinu til nánari skoðunar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.

Börn á fimleikaæfingu. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Börn á fimleikaæfingu. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Fötur og handklæði í salnum vegna leka

Fram kemur einnig í fundargerð bæjarráðs að bæjarverkfræðingur hafi gert grein fyrir ástandi á þaki fimleikahússins og sagt frá viðgerðum sem hafa farið fram á fimleikasalnum í Ásgarði til að koma í veg fyrir leka. Verið er að vinna að ástandsskoðun þaksins og verður greinargerð um hana lögð fram við afgreiðslu á fjárhagsáætlun.

Fram kemur í bréfi frá framkvæmdastjóra Ungmennafélags Stjörnunnar til bæjarráðs að ástandið hafi verið þannig í lengri tíma að nauðsynlegt hafi verið að hafa fötur og handklæði úti um allan sal þegar mikil rigning hefur verið úti. „Við teljum þetta ekki vera aðstæður sem eru viðunandi til æfinga fyrir iðkendur á hvaða aldri sem þeir eru, auk þess sem slysahætta skapast af sökum bleytu og eins liggja dýnur og önnur áhöld undir skemmdum vegna raka og hættu á myglu. Það er því einlæg ósk okkar að bærinn sem er eigandi mannvirkisins ráðstafi fjármunum í lagfæringar á þaki hússins,“ segir í bréfinu, sem bæjarráð hefur einnig vísað til nánari skoðunar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2019.

Keppendur í hópfimleikum. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Keppendur í hópfimleikum. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka