Borgarráð hefur heimilað að gengið verði til samninga um sölu á Alliance-húsinu á Grandagarði 2 og tengdum byggingarrétti til Alliance-þróunarfélags.
Söluverðið er 900 milljónir króna. Félagið hyggst byggja upp á reitnum hótel, litlar íbúðir til útleigu og margvíslega þjónustustarfsemi, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Í útfærslu þróunarfélagsins á reitnum er gert ráð fyrir 95 herbergja hóteli. Viljayfirlýsing við hótelkeðju liggur fyrir. Verður það hótel innan dönsku hótelkeðjunnar Guldsmeden sem í dag rekur níu hótel í Danmörku, Noregi, Berlín og Íslandi (Hótel Eyja Skipholti og fyrirhuguð opnun 2019 Hótel Vonar Laugavegi 55). Að Alliance-hópnum standa félögin M3 Capital, eigandi Örn Kjartansson, og Eldborg Capital, eigandi Brynjólfur J. Baldursson.