Fátt hefur meira verið meira rætt í íslensku samfélagi í dag en myndskeið sem sýnir grínistann Björn Braga Arnarsson káfa á klofi 17 ára gamallar stúlku á veitingastað á Akureyri aðfaranótt sunnudags. Ljóst er að framferði Björns Braga hefur þegar haft afleiðingar fyrir hann.
Myndskeiðið fór í dreifingu í gærkvöldi, Björn baðst svo opinberlega afsökunar í nótt og laust eftir hádegi í dag lýsti hann því yfir að hann stigi til hliðar sem spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna, Gettu betur, en hinn 34 ára gamli Björn Bragi hefur verið spyrill í keppninni frá því árið 2014. Með því að stíga til hliðar sagðist Björn vilja axla ábyrgð á gjörðum sínum í verki.
Ljóst er að málinu lýkur þó ekki þar, en lögreglan á Norðurlandi eystra er nú með málið á sínu borði, samkvæmt frétt DV. Bergur Jónsson rannsóknarlögreglumaður segist í samtali við miðilinn reikna með því að sest verði niður með hlutaðeigandi aðilum við rannsókn málsins.
Einnig greinir Fréttablaðið frá því að Íslandsbanki og fjármögnunarþjónustan Ergo séu hætt við að bjóða viðskiptavinum sínum upp á uppistand með Birni Braga.
Björn Bragi er einnig hluti af uppistandshópnum Mið-Íslandi, sem hefur ár eftir ár staðið fyrir uppistandssýningum í Þjóðleikhúskjallaranum og víðar um landið.
Jóhann Alfreð Kristinsson, einn uppistandaranna í Mið-Íslandi, sagði við blaðamann mbl.is að hann vildi ekki tjá sig um málið á þessari stundu.