Skarphéðinn Guðmundsson dagskrárstjóri RÚV segir við fréttastofu RÚV að mál Björns Braga Arnarssonar sé til skoðunar hjá Ríkisútvarpinu „eins og gefur að skilja“, en að ekki sé hægt að segja meira um málið að svo stöddu.
Í frétt RÚV um málið kemur fram að Skarphéðinn eigi ekki von á að ákvörðun verði tekin um framhaldið í dag, en Björn Bragi er spyrill í spurningakeppni framhaldsskólanna Gettu betur og hefur verið í því starfi frá árinu 2014.
Myndskeið af Birni Braga fór í dreifingu á samfélagsmiðlum í gær, en á myndskeiðinu sést hann káfa án samþykkis á klofi 17 ára gamallar stúlku utan klæða. Atvikið átti sér stað á Akureyri aðfaranótt sunnudags.
Björn Bragi baðst opinberlega afsökunar vegna málsins á Facebook-síðu sinni í nótt og sagðist taka á því alla ábyrgð, en hann hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir framferði sitt.
„Þessi hegðun mín var algjörlega óásættanleg og ég er miður mín yfir því að hafa hagað mér með þessum hætti. Það að ég hafi verið undir áhrifum áfengis er engin afsökun,“ skrifaði grínistinn, en sem áður segir er ekki ljóst hvort gjörðir hans um helgina verði til þess að hann verði látinn stíga til hliðar sem spyrill í Gettu betur.