Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt tvo karlmenn, 69 ára og 77 ára, í sjö mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir meiri háttar brot á skattalögum í rekstri einkahlutafélags sem nú er afskráð. Stóðu þeir ekki skil á virðisaukaskatti og opinberum gjöldum upp á samtals 35 milljónir króna.
Mönnunum var jafnframt gert að greiða 21,5 milljónir króna í ríkissjóð hvorum um sig, ella sæti þeir fangelsi í 300 daga.
Fyrir dómi kom fram að mennirnir hefðu í sameiningu tekið ákvarðanir varðandi fjármál félagsins. Hvorugur mannanna gat hins vegar útskýrt hvers vegna skýrslum vegna virðisaukaskatts og staðgreiðslu hafi verið skilað of seint. En ástæðu þess að skatti hafi ekki verið skilað til ríkissjóðs sögðu þeir einfaldlega hafa verið blankheit.
Báðir mennirnir neituðu sök í málinu.