Vilja leyfa skemmtanir á helgidögum

Frumvarp er nú í smíðum í dómsmálaráðuneytinu sem hefur það …
Frumvarp er nú í smíðum í dómsmálaráðuneytinu sem hefur það að markmiði að afnema bann við skemmtunum á helgidögum þjóðkirkjunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Í samráðsgátt stjórnvalda er nú að finna drög að frumvarpi frá dómsmálaráðuneytinu, sem kveður á um að fella niður ákvæði laga um helgidagafrið sem banna tiltekna þjónustu, skemmtanir og afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar.

Með frumvarpinu verður þeim sem vilja veita þjónustu eða stunda afþreyingu á helgidögum þjóðkirkjunnar gert það kleift, en um það hefur verið fjallað mörg undanfarin ár að lög um helgidagafrið séu barn síns tíma. Þingflokkur Pírata lagði til fyrr á þessu ári að lögin yrðu felld á brott með öllu.

Skemmtanir á borð við dansleiki hafa verið bannaðar á helgidögum kirkjunnar og jafnvel hefur verið bannað samkvæmt laganna bókstaf að halda bingó eða happadrætti á þessum dögum. Einhverjir hafa reynt að fara í kringum þessi lög og skemmst er þess að minnast að síðustu páska var boðið upp á „drepleiðinlega dagskrá“ á viskíbar í miðborg Reykjavíkur á föstudaginn langa.

Samkvæmt frumvarpsdrögunum verður upptalning á helgidögum þjóðkirkjunnar færð yfir í þjóðkirkjulög, en í lögum um helgidagafrið verður þó enn ákvæði um að óheimilt sé að trufla guðsþjónustur, kirkjulegar athafnir eða annað helgihald með hávaða eða öðru því sem andstætt er helgi viðkomandi athafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert