„Við fararstjórn reynir á margt, svo sem að þekkja landið og finna réttar og öruggar leiðir,“ segir Helgi Jóhannesson lögmaður. „Komi eitthvað upp á, svo sem slys eða veikindi, er það fararstjórans að bregðast við. Að fenginni þeirri þekkingu sem ég fékk á námskeiðinu finnst mér hreinlega óráð að farið sé í lengri ferðir um óbyggðir og öræfi nema kunna fyrstu hjálp.“
Tæplega tuttugu fararstjórar í Ferðafélagi Íslands luku um síðustu helgi átta daga námskeiði sem bar yfirskriftina Fyrsta hjálp í óbyggðum. Námskeiðið, sem er á vegum Björgunarskóla Slysavarnafélagsins Landsbjargar, er alþjóðlegt og kennt með líku lagi víða um lönd undir yfirskriftinni Wilderness First Responder.
Farið var yfir fjölmörg atriði á námskeiðinu, sem stóð í alls átta daga. Leiðbeinendur voru Ármann Höskuldsson, Tryggvi Hjörtur Oddsson og Sigurjón Valmundsson.
Sjá samtal við Helga í heild í Morgunblaðinu í dag.