Aðalmeðferð í peningaþvættismáli Júlíusar Vífils Ingvarssonar, fyrrverandi borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, fer fram 29. nóvember næstkomandi. Þetta kom fram við fyrirtöku í málinu fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur eftir hádegi í dag.
Hörður Felix Harðarson, verjandi Júlíusar Vífils, lagði fram greinargerð fyrir hönd umbjóðanda síns, sem ákærður er fyrir að hafa geymt á bilinu 131-146 milljónir króna á erlendum bankareikningum, en hluti fjármunanna er sagður ávinningur refsiverðra brota.
Í ákæru segir að við rannsókn málsins hafi Júlíus viðurkennt að fjármagnið væru tekjur sem hann hefði ekki gefið upp til skatts og því ekki greitt af þeim útsvar né tekjuskatt. Þar segir þó einnig að Júlíus hafi neitað að gera nánari grein fyrir því hvenær teknanna var aflað og því sé ekki hægt að finna út nákvæman ávinning hans, en ákæruvaldið telur ávinning Júlísar Vífils á bilinu 49-57 milljónir króna.
Júlíus Vífill sagðist saklaus af peningaþvættisákærunni við þingfestingu málsins í byrjun septembermánaðar og jafnframt sagði hann við fjölmiðla þá að hann væri viss um að hafa sigur í málinu.
mbl.is óskaði eftir því að fá greinargerð verjandans afhenta í dag, en þeirri beiðni var hafnað að ósk Júlíusar Vífils.
Fram kom í samræðum Björns Þorvaldssonar héraðssaksóknara og Harðar verjanda í dómsal í dag að hugsanlega yrði ekki þörf á því að kalla nein vitni til skýrslutöku við aðalmeðferð málsins, nema þá að sjálfsögðu Júlíus Vífil sjálfan. Það mun þó ráðast síðar.