Búist er við að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs verði töluverður í borginni á morgun. Besta ráðið til að draga úr mengun er að hreyfa ekki bílinn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg.
Styrkur köfnunarefnisdíoxíðs (NO2) hefur verið hár í borginni í dag, eins og í gær samkvæmt mælingum í mælistöðinni við Grensásveg. Mengunin kemur frá útblæstri bifreiða og er mikil á morgnana og um eftirmiðdaginn þegar umferð er mest, að því er kemur fram í tilkynningunni.
Gert er ráð fyrir áframhaldandi hægviðri og frosti og umtalsverðar líkur á því að styrkur köfnunarefnisdíoxíðs fari yfir sólarhringsheilsuverndarmörk við Grensásveg.
Líklegt er að svipuð staða verði uppi á morgun og af þeim sökum hvetur Reykjavíkurborg borgarbúa og alla sem geta breytt út af vananum til að hvíla bílinn á morgun. „Tilvalið er að kynna sér strætóleiðir í kvöld eða ganga eða hjóla til og frá áfangastaða,“ segir í tilkynningunni.
Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir köfnunarefnisdíoxíð eru 75 míkrógrömm á rúmmetra. Búast má við svipuðum veðuraðstæðum næstu daga en köfnunarefnisdíoxíð veldur ertingu í lungum og öndunarvegi. „Þeir sem eru viðkvæmir fyrir í öndunarfærum ættu að hvetja samborgara sína til að láta bílinn vera á morgun. Annars þarf fólk að forðast útivist og takmarka áreynslu í nágrenni stórra umferðargatna.“