Arthúr Vilhelm Jóhannesson, framkvæmdastjóri Elju starfsmannaþjónustu, segir fyrirtækið hafa fengið margar umsóknir frá Indlandi og Kína og fleiri ríkjum varðandi störf á Íslandi.
„Sem við auðvitað höfnum. Hér er verið að gera hlutina rétt, þannig að sómi sé að fyrir notendafyrirtækið, Elju og starfsmanninn,“ segir Arthúr Vilhelm og bendir á að fyrirtækið taki eingöngu við starfsfólki frá EES-svæðinu. Hann segir eftirspurnina eftir erlendu starfsfólki á næsta ári „líta nokkuð vel út“.
„Það er auðvitað að hægjast á hagkerfinu. Við erum núna í sambandi við okkar viðskiptavini, til dæmis varðandi næsta sumar. Það þarf að fara að huga að því. Við merkjum ekki að það sé að verða neitt stopp.“