Vöktun hafsvæða við Ísland ábótavant

Varðskipið Þór er eina skipið með mengunarvarnabúnað á svæði sem …
Varðskipið Þór er eina skipið með mengunarvarnabúnað á svæði sem teygir sig austur að Kanada og vestur til Noregs. mbl.is/Ómar Óskarsson

Styrkja þarf eftirlitsgetu Íslands á íslenskum hafsvæðum þar sem helstu auðlindir þjóðarinnar er að finna og eru öflugt löggæslu- og öryggiseftirlit og vöktun hafsvæðisins forsendur fyrir verndun landsins. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu þjóðaröryggisráðs um framkvæmd þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland sem birt var í dag.

Markmið þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland er að tryggja sjálfstæði Íslands og fullveldi og tryggja friðhelgi landamæra Íslands, öryggi landsmanna og vernd grunnvirkja og innviða og var skýrslan unnin í samvinnu við þau ráðuneyti sem bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar, hvert á sínu málefnasviði.

Stóraukin skipaumferð auki líkur á slysum

Þjóðaröryggisstefnan felur í sér ellefu áherslur sem allar hafa jafnt vægi og grein gerð fyrir stöðu mála í hverjum málaflokki fyrir sig í skýrslunni.

Í öðrum hluta skýrslunnar er meðal annars fjallað um áhættu mengunarslysa og segir að aukin skipaumferð um norðurhöf auki líkur á slíkum slysum sem geta haft óafturkræf áhrif á lífríki hafsins og hlýnun loftslags og sjávar. Þá segir að rannsóknir og vöktun séu mikilvægar í þessu samhengi, en í skýrslu stýrihóps innanríkisráðherra um björgun og öryggi í norðurhöfum frá 2016 komi fram að mengunarvöktun sé takmörkuð. Hún felist aðallega í eftirliti með gervitunglamyndum og eftirliti einnar eftirlitsflugvélar og eins varðskips á öllu svæðinu.

Berum ábyrgð á margfalt stærra hafsvæði

Nauðsynlegar umbætur á næstu 12 mánuðum sé styrking eftirlitsgetu Íslands á íslenskum hafsvæðum. „Íslendingar bera ábyrgð á hafsvæðum sem eru margfalt stærri en landið. Á þessum svæðum eru auðlindir sem eru undirstaða lífsskilyrða í landinu, sæstrengir sem halda uppi öllum fjarskiptum við umheiminn og mörg þúsund kílómetra strandlengja sem eru hin eiginlegu landamæri Íslands. Öflugt löggæslu- og öryggiseftirlit og vöktun hafsvæðisins eru forsendur fyrir verndun svæðisins. Koma þarf í veg fyrir ólöglegt athæfi, uppgötva mengunarflekki tímanlega og að tryggja skjót viðbrögð við slysum.“

Rauði þráður skýrslunnar er sá að tryggja þurfi fyrirsjáanleika í fjárveitingum til öryggis- og varnarmála til lengri tíma, svo sem til undirstofnana Sameinuðu þjóðanna, Atlantshafsbandalagsins og reksturs og viðhalds varnarmannvirkja á Íslandi. Styrkja þurfi greiningarvinnu og samstarf á milli lögregluyfirvalda, svo sem í baráttunni við skipulagða glæpastarfsemi og landamæraeftirlit.

Meðal annarra þátta sem fjallað er um í skýrslunni, sem hægt er nálgast í heild sinni á vef Stjórnarráðsins, eru afvopnun og friðsamleg lausn deilumála, almannavarna- og öryggismál, netöryggi og friðlýsing fyrir kjarnorkuvopnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert