Þeir sem skráðir eru í trúfélag Zúista geta nú sótt um endurgreiðslu sóknargjalda á vefsíðu félagsins. Opnað var fyrir umsóknir í dag og er opið fyrir umsóknir út mánuðinn, að því er segir á vefsíðunni.
Ákveðin leynd ríkti yfir endurgreiðslum sóknargjalda síðasta árs og voru þær lítið auglýstar, svo margir töldu sig hafa farið á mis við þær.
Í tilkynningu á vef Zúista segir að einn af helgisiðum Zúista feli í sér niðurfellingu og endurgreiðslu á sóknargjöldum til sóknarbarna. „Súmerar til forna voru með elsta skattkerfi sem skrár eru til um, kerfið kallaðist Bala kerfið og skatturinn nefndist byrgði [sic].“
„Súmerar gerðu sér einnig grein fyrir hættunni sem stafar af mikilli skuldasöfnun í hagkerfum og reglulega voru allar skuldir niðurfelldar og byrjað upp á nýtt.“
Umsækjendum býðst að velja hvernig endurgreiðslu þeirra er háttað. Valmöguleikarnir eru þrír, en hægt er að fá endurgreiðsluna inn á eigin bankareikning, láta hana renna til góðgerðarmála eða í „Ziggurat-sjóðinn“.