20 milljarðar gætu tapast

Útflutnignsverðmæti uppsjávartegunda er svipað og var fyrir áratug.
Útflutnignsverðmæti uppsjávartegunda er svipað og var fyrir áratug. mbl.is

Svo gæti farið að útflutningsverðmæti afurða uppsjávartegunda minnkaði um hátt í 20 milljarða króna á næsta ári frá yfirstandandi ári.

Áætlað er að útflutningsverðmæti uppsjávarfisks í ár verði um 47,5 milljarðar, en miðað við þær forsendur sem nú liggja fyrir gætu það orðið um 28,3 milljarðar á næsta ári. Fyrir fimm árum, árið 2013, var útflutningsverðmætið í hæstu hæðum og var um 80 milljarðar króna.

Samkvæmt ráðgjöf Alþjóðahafrannsóknaráðsins verður verulegur samdráttur í makríl- og kolmunnaafla á næsta ári og engin loðnuveiði samkvæmt niðurstöðum mælinga Hafrannsóknastofnunar. Hins vegar er gert ráð fyrir yfir 50% aukningu í norsk-íslenskri síld eftir samdrátt síðustu ár.

Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir Gunnþór Ingvason, framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, að verði þessi sviðsmynd að veruleika þýði það gífurlegt högg fyrir fyrirtækin, en ekki síður og jafnvel enn meira fyrir samfélögin. Hann segir að uppsjávarfyrirtækin séu yfirleitt öflug. Þau hafi verið að byggja upp og hagræða og hafi nýtt gott árferði síðustu ár til að styrkja sig. Fyrirtækin muni verða að bregðast við með því að draga saman seglin.

„Uppsjávarfyrirtækin eru komin mun lengra heldur en bolfiskurinn í hagræðingu, auk þess sem þau eru flest blönduð og hafa þá einhverja sveiflujöfnun í bolfiskinum,“ segir Gunnþór. „Fjárfestingar síðustu ár taka hins vegar í og fyrirtækin geta ekki annað en dregið saman til að bregðast við þessu. Það leiðir til minni vinnu, minni tekna og minni umsvifa í samfélögunum.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert