Barnið sem enginn vildi

Hasim Ægir Khan og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem skráð hefur …
Hasim Ægir Khan og Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, sem skráð hefur sögu hans. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þetta er mjög mikil saga og maður skynjar sterkt hversu mikið tilfinningalegt álag þetta hefur verið á lítið barn. Það hefur ekki verið auðvelt fyrir íslenska götubarnið að horfa upp á félaga sína eiga allt sem þá dreymdi um sjálfa, meðan það átti ekkert. Einmanaleikinn var algjör og engin völ á þessari skilyrðislausu ást sem við þurfum öll á að halda til að vaxa og þroskast. Það er í raun ótrúlegt að Hasim hafi lifað þetta af. Algjört kraftaverk.“

Þetta segir Þóra Kristín Ásgeirsdóttir, höfundur bókarinnar Hasim – götustrákur í Kalkútta og Reykjavík, sem kom út hjá JPV útgáfu fyrir helgina. 

Ungur fékk Hasim Ægir Khan vindinn í fangið. Sex ára gamall var hann settur aleinn upp í lest í Gömlu-Delhí og endaði sólarhring síðar í Kalkútta þar sem enginn tók á móti honum og fólk talaði framandi tungumál. Næstu árin var hann umkomulaus og einn í heiminum. Sumir voru honum góðir en hann varð líka fyrir ofbeldi og kynferðislegu ofbeldi að því er fram kemur í kynningu JPV útgáfu.

Tólf ára var Hasim sendur yfir hálfan hnöttinn, úr hitanum og mannþrönginni í Kalkútta í snjóinn og fámennið í Þorlákshöfn; úr örbirgð í allsnægtir. Allt í einu átti hann foreldra og systkini – en enginn skildi hann og hann skildi engan. Og ári síðar var hann aftur einn. Beiskur, sár, ráðvilltur og rótlaus. Rændur tungumáli sínu og menningu. Ættleiðingin hafði gengið til baka; fólkið treysti sér ekki til að ala hann upp. Eftir það lenti Hasim milli stafs og hurðar í kerfinu á Íslandi og lifði lífi sem enginn maður getur óskað sér eða yfir höfuð skilið – án þess að hafa verið þar sjálfur. Um tíma leigði hann herbergi með umrenningum í miðbæ Reykjavíkur. Enn á grunnskólaaldri.

Tilfinningalega þungt

Hasim fimmtán ára á rauðakrossheimilinu.
Hasim fimmtán ára á rauðakrossheimilinu.

„Það er alveg rétt, líf mitt hefur ekki verið auðvelt,“ byrjar Hasim á ljómandi góðri íslensku. „Það var erfitt að vera unglingur á Íslandi og tilfinningalega þungt að eiga engan að, þannig lagað, og geta ekki talað við nokkurn mann um það sem ég hafði alla tíð byrgt inni í mér.“

Hann kveðst hafa kynnst mörgu góðu fólki á þessum tíma en enginn komst inn fyrir brynjuna. Hasim treysti ekki nokkrum manni. „Ég hafði heyrt um Hasim og langaði að kynnast honum; saga hans vakti áhuga minn,“ rifjar Þóra Kristín upp. „Hann langaði að segja mér sögu sína og fljótlega kom upp sú hugmynd að skrifa unglingabók um líf hans. Hasim var hins vegar ofboðslega sært og reitt barn á þessum tíma; eiginlega eins og eldspúandi dreki, þannig að ég tók bókarskrifin út af borðinu. Þau yrðu að bíða betri tíma, þegar fjarlægðin væri orðin meiri. Þessar raunir voru einfaldlega of nálægt okkur í tíma til að forsvaranlegt væri að rifja söguna upp. Hasim var eitt stórt gapandi sár.“

Hasim er sammála þessu mati. „Ég var alls ekki tilbúinn á þessum tíma og er mjög feginn að ekki varð af þessu. Sú saga hefði orðið allt öðruvísi en sú sem liggur fyrir í dag. Það var nógu sárt og erfitt að rifja þetta allt saman upp núna, þegar ég bý að mun meiri þroska. Í bókinni er allt ferðalagið, frá vöggu og fram á þennan dag.“

Uppsöfnuð reiði

Eftir á að hyggja kveðst Hasim hafa haft litla sem enga stjórn á lífi sínu sem unglingur. „Reiðin var uppsöfnuð. Ég var brotinn þegar ég kom hingað og ekki bætti úr skák að fjölskyldan sem tók mig að sér hafnaði mér; setti mig út á götu. Ég þekkti svo sem hvernig það var að vera á götunni en Indland og Ísland eru hins vegar eins og svart og hvítt. Í því sambandi eru veðurfarið og menningin bara byrjunin. Það var vissulega erfitt að vera á götunni á Indlandi en þar voru samt fjölmörg önnur börn í sömu stöðu og ég. Hérna á Íslandi skar ég mig úr. Öll önnur börn áttu fjölskyldu og samastað. Fyrir vikið var mun erfiðara að vera á götunni hér en á Indlandi og höfnunin ennþá meiri. Oft hafði mér liðið illa en aldrei eins og á þessum tíma. Ég var gjörsamlega umkomulaus. Hafði engan til að tala við þegar mér leið illa og engan til að gleðjast með mér þegar vel gekk. Eru það ekki sjálfsögð mannréttindi?“

Það tók Hasim þrjú ár að ná tökum á íslenskunni en hann fékk meðal annars hjálp frá Námsflokkum Reykjavíkur. „Það var gott fólk,“ segir hann með áherslu. „Auk þess að kenna mér íslensku var alltaf eitthvað gott að borða þar en ég var alltaf svangur og ofboðslega horaður. Eitthvað annað en núna.“

Hann hlær.

Hver er ég?

„Ég var ennþá reiður út í umhverfi mitt og lærdómurinn hjálpaði mér; gaf mér tilgang. Grundvallarspurningar brunnu á mér: Hver er ég og hvar á ég að vera? Ég þekkti ekki mitt eigið sjálf. Ég var öðruvísi en önnur börn í útliti og var reglulega spurður hvaðan ég væri. Því gat ég ekki svarað. Það var sárt.“

– Varstu erfiður?

„Svaraði ég þessu neitandi væri ég að skrökva. Ég var erfiður; vandræðaunglingur, eins og það er kallað. Ég geri mér fulla grein fyrir því. Ég gerði ýmislegt sem ég hefði ekki átt að gera og sé eftir því í dag. Ég hafnaði fólki, eins og fólk hafnaði mér. Ég kunni ekkert annað.“
Þóra Kristín segir mikilvægt að skoða málið í samhengi. „Hasim var bara tólf ára þegar hann kom til Íslands, hafði upplifað ótrúlega margt og mætt gríðarlegum áskorunum á stuttri ævi. Hann hafði farið mikils á mis tilfinningalega. Þegar hann kom hingað þurfti hann að læra allt upp á nýtt; tungumálið, að borða, klæða sig og svo framvegis. Auk þess sem veðurfarið var honum framandi. Þetta gat ekki verið ólíkara þeim heimi sem Hasim hafði kynnst. Erfiðleikarnir stigmögnuðust og svo fór allt í háaloft.“

Viðtalið við Hasim Ægi og Þóru Kristínu má lesa í heild í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins sem kemur út á morgun. 



Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka