Ríkið endanlega sýknað í deilu um Fell

Jörðin Fell liggur að Jökulsárlóni. Tekist hefur verið á um …
Jörðin Fell liggur að Jökulsárlóni. Tekist hefur verið á um sölu hennar fyrir dómstólum, en nú er málinu endanlega lokið. mbl.is/RAX

Hæstiréttur Íslands staðfesti í gær sýknudóm yfir íslenska ríkinu í máli sem félagið Fögrusalir ehf. höfðaði vegna beitingar forkaupsréttar á jörðinni Felli í Suðursveit, sem liggur að Jökulsárlóni.

Ríkið keypti jörðina með því að nýta sér sextíu daga forkaupsrétt sem finna má í náttúruverndarlögum, en forsvarsmenn Fögrusala töldu það ekki standast og kröfðust þess að ríkið afsalaði sér jörðinni gegn 1.520.000.000 kr. greiðslu, sem var það verð sem Fögrusalir hafði boðið í jörðina er hún var til sölu.

Félagið taldi að ríkið hefði einungis átt að fá fimm sólarhringa frest til þess að stíga inn í kaupin á jörðinni, í samræmi við ákvæði jarðalag. Félagið hélt því einnig fram að ef styðjast ætti við náttúruverndarlög hefði ríkið beðið of lengi með að nýta sér forkaupsrétt sinn og farið umfram þá sextíu daga sem lögin kveða á um.

Héraðsdómi Suðurlands féllst ekki á þessar kröfur Fögrusala og Hæstiréttur staðfesti niðurstöðu dómstólsins.

Fögrusölum ehf. er gert að greiða ríkinu milljón krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert