Tímabundið gjald lagt á rútustæðin

Samkvæmt tilkynningu telur Isavia óhjákvæmilegt annað en að fá úr …
Samkvæmt tilkynningu telur Isavia óhjákvæmilegt annað en að fá úr því skorið hvernig haga eigi gjaldtöku á flugvellinum. mbl.is/Sigurður Bogi

Nýtt bráðabirgðagjald á ytri hópbifreiðastæði við Keflavíkurflugvöll tekur gildi á mánudag, 5. nóvember, og er ætlað að verja samkeppnislega hagsmuni og gæta jafnræðis milli samgöngumáta sem nota innviði Isavia í tengslum við flutning farþega til og frá flugstöðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Isavia.

Samkvæmt nýrri verðskrá mun hópbifreið, sem tekur allt að 19 farþega, greiða 3.200 krónur fyrir hvert skipti sem farþegar eru sóttir í flugstöðina. Bifreið sem tekur 20 til 45 farþega greiðir 7.400 krónur og bifreið sem tekur fleiri en 45 farþega greiðir 9.900 krónur.

Isavia hóf gjaldtöku á ytri hópbifreiðastæðum 1. mars síðastliðinn. Gjaldtakan var tilkynnt til samkeppniseftirlitsins og er málið enn til meðferðar, en gjaldtöku var hætt á grundvelli bráðabirgðaákvörðunar eftirlitsins í júlí.

Samkvæmt tilkynningu telur Isavia óhjákvæmilegt annað en að fá úr því skorið hvernig haga eigi gjaldtöku á flugvellinum en hefur ákveðið að frá upphafi gjaldtöku 1. mars og til 4. nóvember gildi aðlögunarverð. Tímabundna gjaldið, sem tekur gildi 5. nóvember, verður endurskoðað til framtíðar þegar endanleg niðurstaða í máli Isavia við Samkeppniseftirlitið um tilhögun og forsendur gjaldtöku liggur fyrir.

Samhliða verður ákvörðun tekin um hvort gjald sem tekið var frá 1. mars til 17. júlí 2018, þegar bráðabirgðaákvörðun Samkeppniseftirlitsins var birt, verði endurgreitt eða ekki.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert