Vilja ekki í skólann vegna vegarins

Börnin sem koma lengst að ferðast upp undir 80 kílómetra …
Börnin sem koma lengst að ferðast upp undir 80 kílómetra á dag til að sækja skóla. Ljósmynd/Mats Wibe Lund

Borið hefur á því að börn í Húnaþingi vestra vilji ekki fara í skólann því þau treysti sér ekki í ferðalagið með skólabílnum til Hvammstanga, en ástandið á þjóðvegi 711, Vatnsnesvegi, hefur farið versnandi undanfarin ár.

Íbúar svæðisins sendu frá sér ályktun í kjölfar íbúafundar þar sem fram kemur að börn kasti reglulega upp í skólaakstri vegna hristings, hávaði sé mikill og að ferðatími hafi lengst verulega vegna ástands vegarins.

„Það er auðvitað skólaskylda á Íslandi og það er erfitt að vera foreldri og þurfa að ýta barninu út í skólabíl, vitandi hvað bíður þess,“ segir Guðrún Ósk Steinbjörnsdóttir. Þau börn sem komi lengst að ferðist upp undir 80 kílómetra á dag.

Hún segir íbúa orðna langþreytta á ástandinu. Sumir hverjir hafi búið á svæðinu í áratugi og horft á veginn versna ár frá ári.

„Við höfum látið í okkur heyra áður en ekki náð eyrum. Nú erum við vongóð af því samgönguráðherra ætlar að hitta okkur og við bindum miklar vonir við fundinn,“ segir Guðrún, en hún er einn skipuleggenda fundar samgönguráðherra, fulltrúa Vegagerðarinnar og sveitarstjórnar Húnaþings vestra um málefni vegarins sem haldinn verður 14. nóvember. „Við verðum illa svikin ef það fer svo að ekkert komi út úr fundinum.“

Í ályktuninni kemur einnig fram að gríðarleg fjölgun ferðamanna hafi það í för með sér að vegurinn sé afleitur allt árið og að viðhaldskostnaður bíla á svæðinu hafi hækkað mikið undanfarin ár. Ljóst sé að fólk sjái sig knúið til að flytja af svæðinu verði ekki gerðar verulegar umbætur í vegamálum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert