Bíða aðgerðaáætlunar útgerðarinnar

Útgerðin hefur fengið frest til klukkan átta í kvöld og …
Útgerðin hefur fengið frest til klukkan átta í kvöld og mun skipið sitja sem fastast þangað til. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekkert verður aðhafst við björgun flutningaskipsins Fjordvik fyrr en útgerðarfélag þess hefur skilað aðgerðaáætlun. Útgerðarfélagið óskaði eftir aðkomu að björguninni og hefur fengið frest til klukkan átta í kvöld. Þetta staðfestir Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, í samtali við mbl.is, en RÚV greindi fyrst frá þessu.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.
Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar.

Tveir fulltrúar frá tryggingafélagi útgerðarinnar eru á leið til landsins frá Hollandi og er von á þeim nú síðdegis. Aðgerðaáætlun útgerðarfélagsins þurfa yfirvöld hérlendis svo að staðfesta, með eða án breytinga, áður en hafist verður handa.

„Eins og staðan er þá er það mat allra sem að málinu koma að það sé ekki til neins að gera neitt núna, það er svo hvasst,“ segir Kjartan Már.

Bæjarstjórinn fundaði með fulltrúum Umhverfisstofnunar og hafnarstjóra nú um hádegisbil þar sem staðan var tekin. Talsverðar áhyggjur séu af olíuleka en eins og er sé lítið annað hægt að gera en að bíða eftir að veður skáni og aðgerðaáætlun útgerðarfélagsins liggi fyrir.

„Okkur er sagt að olían sem er um borð sé ekki svartolía heldur svokölluð gasolía, sem er aðeins þykkari en venjuleg olía en gufar upp á einhverjum klukkutímum.“

Flutningaskipið Fjordvik var að flytja sement og átti að skila 1.600 tonnum í Helguvík og sigla þaðan til Akureyrar með meira.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert