Varðskipið Týr er komið til Helguvíkur þar sem flutningaskipið Fjordvik strandaði í nótt. Að sögn Landhelgisgæslunnar er veðrið mjög slæmt og aðstæður erfiðar. Skipið lemst við stórgrýttan hafnargarðinn.
Klukkan átta munu Landhelgisgæslan, Umhverfisstofnun og aðrir hlutaaðeigandi hittast og ræða hver næstu skref verða.
Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum hefur einhver olía lekið úr skipinu. Sérfræðingar frá Umhverfisstofnun voru kallaðir á staðinn vegna lekans. Ekkert verður gert fyrr en búið er að kanna botn skipsins og sjá hversu mikill lekinn er.
Lögreglan hefur lokað svæðinu í kring og fer því enginn óviðkomandi þangað. Björgunarsveitarmenn eru einnig á vettvangi.
Greint var frá því í útvarpsfréttum RÚV að Pólverjar hafi að mestu verið í áhöfninni. Lóðsinn var íslenskur.