Fimmtán bjargað við Helguvík

TF-LIF var kölluð út fyrr í nótt til björgunar skipverja.
TF-LIF var kölluð út fyrr í nótt til björgunar skipverja. mbl.is/Árni Sæberg

Fimmtán manns hefur verið bjargað um borð í þyrlu Landhelgisgæslunnar, eftir að flutningaskip strandaði við hafnargarðinn í Helguvík. Neyðarkall barst frá skipinu klukkan 00:50 og voru þyrlur Gæslunnar, TF-GNA og TF-LIF, þegar í stað kallaðar út, auk björgunarsveita frá Suðurnesjum og Hafnarfirði.

Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni hefur varðskipið Týr einnig verið sent á strandstað, en það var statt undan Þorlákshöfn þegar kallið barst.

TF-GNA tók á loft frá Reykjavíkurflugvelli klukkan 01:20 og hóf björgunaraðgerðir skömmu síðar. Laust eftir klukkan tvö hafði áhöfn þyrlunnar bjargað öllum fimmtán um borð, það er fjórtán manna áhöfn og íslenskum lóðs.

Á meðan björgunaraðgerðum stóð lamdist skipið við stórgrýttan hafnargarðinn, samkvæmt upplýsingum Gæslunnar. Starfsmenn Umhverfisstofnunar eru á leið á vettvang með mengunarvarnabúnað og von er á varðskipinu Tý undir morgun.

Skipið ber nafnið Fjordvik og er sementsflutningaskip, sem skráð er á Bahamaeyjum.

Græni punkturinn á kortinu sýnir staðsetningu skipsins, í hafnargarðinum við …
Græni punkturinn á kortinu sýnir staðsetningu skipsins, í hafnargarðinum við Helguvík. Skjáskot af vefnum Marine Traffic
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert