Ný gjaldskrá Isavia fyrir hópferðabíla á fjarstæðum við flugstöð Leifs Eiríkssonar brýtur gegn samkeppnislögum með sama hætti og fyrri gjaldskráin að mati Gray Line. Gray Line sendi frá sér yfirlýsingu þess efnis í dag, en Isavia sendi frá sér tilkynningu í gær um að tímabundin gjaldtaka hæfist á mánudag, 5. nóvember.
Í yfirlýsingu Gray Line segir að um sé að ræða 1.500% ofurálagningu á þann kostnað sem Isavia hefur af fjarstæðunum miðað við útreikninga Samkeppniseftirlitsins, sem hefur bent Isavia á að haga gjaldskrá sinni þannig að hún standist kostnaðarlegar forsendur.“
„Ljóst er að 1.500% álagning gengur þvert gegn þessum fyrirmælum,“ segir í yfirlýsingu.
„Samkeppniseftirlitið stöðvaði okurinnheimtu Isavia í fyrra skiptið og Gray Line gerir fastlega ráð fyrir að svo verði einnig um þetta óskammfeilna útspil einokunarfyrirtækisins.“
Isavia segir í tilkynningu að gjaldtökunni sé ætlað að verja samkeppnislega hagsmuni og gæta jafnræðis á milli samgöngumáta í farþegaflutningum til og frá flugstöðinni. Gray Line segir þessa fullyrðingu ekki standast skoðun þar sem Isavia innheimti mun lægri gjöld af einkabílum, bílaleigubílum og leigubílum en hópferðabílum.
„Isavia segir í tilkynningu að það raski samkeppni að taka ekki gjald á fjarstæðum fyrir hópferðabíla. Hópferðafyrirtækin tvö sem gerðu tilboð í aðstöðu við flugstöðina og inni í henni greiða hvort um sig 450 þúsund krónur á mánuði fyrir sjálf bílastæðin, eða samtals 11 milljónir króna á ári. Isavia gæti höggvið á hnútinn með því að hætta þessari gjaldtöku og um leið allri innheimtu af bílastæðum fyrir hópferðabíla við flugstöðina. Þá væri ójafnræðið úr sögunni og Isavia sýndi um leið verðugan stuðning við þennan hagkvæma og umhverfisvæna ferðamáta.“