Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, gagnrýnir vinnubrögð samflokksmanna sinna hart á facebooksíðu sinni í gær.
Segist hún hafa sent skrifstofu borgarstjórnar erindi þar sem hún óski eftir að fá að vita hverjar afleiðingar þess væru ef hún sem kjörinn fulltrúi segði sig úr Pírötum, þar sem hún hafi mikinn áhuga á að starfa fyrir borgina en ekki sem Pírati.
Rannveig lýsir í facebookfærslunni óánægju með þá niðurstöðu úrskurðarnefndar Pírata að víkja beri starfsmanni skrifstofu flokksins úr starfi og segir þann úrskurð ljótan og illa ígrundaðan.
Þá sé hann hluti af stærri mynd sem einkennist af „ofbeldi, valdníðslu, einelti, mikilli vanhæfni og ofmati eineltistudda á eigin ágæti“. Segir hún það ekki einsdæmi að starfsmenn flokksins séu hraktir á braut heldur virðist það fremur vera venjan. „Hreyfing sem kemur svona fram við starfsfólkið sitt er ekki fær um að leiða baráttuna fyrir bættu samfélagi,“ segir Rannveig meðal annars, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.