„Þetta mál er bara kornið sem fyllti mælinn,“ segir Rannveig Ernudóttir, varaborgarfulltrúi Pírata, sem sendi frá sér eldfima stöðuuppfærslu á Facebook í gær þar sem hún gagnrýndi vinnubrögð samflokksmanna harkalega.
Hún sendi skrifstofu borgarstjórnar erindi þar sem hún vildi fá að vita um afleiðingar þess ef hún sem kjörinn fulltrúi segði sig úr Pírötum, þar sem hún hafi enn mikinn áhuga á að starfa fyrir borgina. Að sögn Rannveigar ætlar Helga Björk Laxdal, skrifstofustjóri borgarinnar, að skoða málið í dag.
Á Facebook-síðu sinni segir hún að þröngur hópur innan Pírata hafi ekki linnt látum og beitt öllum brögðum til að hrekja fólk úr flokknum. Í samtali við mbl.is nefnir hún að varaþingmaður sé hluti af þessum hópi. „Það var í rauninni setið um framkvæmdaráð þegar þessi fjórir aðilar gengu út. Allur aðdragandi að því var mjög slæmur. Frá því að úrskurðarráð fyrir rúmu ári síðan komist að þeirri niðurstöðu að kjörnir fulltrúar geti ekki setið í nefndum og ráðum innan hreyfingarinnar fer af stað mjög ljót hegðun,“ segir Rannveig og nefnir að á þessum tíma hafi varaþingmenn m.a. tekið málinu mjög persónulega og „sett það yfir á Sindra“.
Þar á hún við Sindra Viborg sem sagði sig úr flokknum eftir að hafa starfað sem formaður framkvæmdaráðs Pírata. Hún nefnir að reynt hafi verið að „tína til alls konar mál“ á hann, þar á meðal málið sem hún nefndi á Facebook og snýst um Hans Benjamínsson, aðstoðarmann framkvæmdastjóra Pírata, Erlu Hlynsdóttur, en úrskurðarnefnd Pírata komst að þeirri niðurstöðu að það eigi að reka hann.
Rannveig segir að Sindri hafi alltaf stigið til hliðar vegna ráðningarinnar á Hans vegna þess að þeir eru vinir. Það hafi komið fram í fundargerðum. Hún segist sjálf hafa tekið þátt í ráðningarferlinu því hún var formaður framkvæmdaráðs á þessum tíma.
Hún nefnir einnig annað mál sem deilt hefur verið um innan Pírata sem varðar birtingu á gögnum flokksins í tengslum við prófkjör og kosningar innan hans. Aðilar innan flokksins höfðu samband við hana og höfðu áhyggjur af því að gögn yrðu birt úr prófkjörum Pírata á sama tíma og persónuverndarlög voru að breytast. Vöruðu þeir við það að þetta yrði gert, því allt verði að vera eftir bókinni.
Í framhaldinu fór ferli í gang þar sem umræddir aðilar voru beðnir um að gefa sitt faglega álit, ásamt þeim sem vildu láta birta gögnin. Að sögn Rannveigar fór það forgörðum að skrá það rétt í fundargerð hver niðurstaða framkvæmdaráðs var en ráðið hafði komist að þeirri niðurstöðu að ekkert væri því til fyrirstöðu að birta gögnin svo lengi sem öllum fyrirmælum væri fylgt rétt eftir. En í fundargerðinni kom einfaldlega fram að framkvæmdaráð hafi komist að þeirri niðurstöðu að ekkert væri athugavert við að birta gögnin.
Á þessum tímapunkti var annar formaður framkvæmdaráðs tekinn til starfa, Sindri Viborg, og var hann sakaður um að ljúga, að sögn Rannveigar. Hún steig í framhaldinu fram og sagði það ósanngjarnt að verið væri að gagnrýna Sindra vegna máls sem hann „annars vegar steig til hliðar með og hins vegar málefni sem komu ekki upphaflega inn á hans könnu“.
Niðurstaða trúnaðarráðs Pírata var að um eineltismál er að ræða. Trúnaðarráð hefur aftur á móti engin verkfæri í höndunum til að bregðast við, þrátt fyrir niðurstöðuna, að sögn Rannveigar. „Ástæðan fyrir því að þetta er eineltismál er sú að enginn hefur samband við mig til að fá upplýsingar um málið þó svo að þeir viti vel að það er eðlilegt að gera það. Heldur var bara hjólað í hann persónulega og hann sakaður um lygar og frændhygli.“
Eru þessar deilur ekki slæmar fyrir flokkinn?
„Jú. Það er búið að reyna lengi að finna því farveg hvernig við eigum að haga okkur, hvernig menningin innan flokksins er,“ segir Rannveig og bendir á að þeir sem hafi gengið hvað harðast fram vilji ekki vinna í málunum heldur hafi þeir til dæmis bara viljað losa sig við Sindra, hvað sem það kostaði.
„Þetta er ekkert fyrsti starfsmaðurinn sem annaðhvort brennur út eða er bolað í burtu. Við erum með frekar ljóta sögu hvað þetta varðar. Hugsjónin á bak við Píratana er dásamleg og góð en það er ömurlegt að það slettist upp á annað gott starf,“ bætir hún við og nefnir unga Pírata sem dæmi.
„Ég er mjög ánægð með störf þingflokksins en það sem vantar er að fólk stígi upp og hætti meðvirkni með eineltishegðun.“
Rannveig nefnir einnig að hún sé starfsmaður Reykjavíkurborgar og sinni félagsstarfi með eldri borgurum og er því ekki á launum sem varaborgarfulltrúi. Ef hún tekur sæti í nefndum og ráðum fær hún aftur á móti greitt fyrir það.
Uppfært:
Yfirlýsing frá trúnaðarráði:
„Trúnaðarráð rannsakar nú það mál sem um ræðir. Engin niðurstaða hefur verið gefin út á hvorn veginn sem er, við höfum tekið þá afstöðu að taka þetta alvarlega og fara ofan í kjölinn á málinu.“