Ólíklegt að aðhafst verði í dag

Sementskipið Fjordvik í Helguvík.
Sementskipið Fjordvik í Helguvík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Vegna veður- og sjóskilyrða þykir ólíklegt að hægt verði að grípa til aðgerða vegna sementskipsins Fjordvik sem strandaði við Helguvíkurhöfn í nótt. Þó er ekki óhugsandi að gluggi opnist þannig hægt verði að grípa til aðgerða. Þetta segir Otti Rafn Sigmarsson, björgunarstjóri hjá Björgunarsveitinni Þorbirni sem staðið hefur vaktina í Helguvík frá því í nótt.

Málið er nú á forræði hafnarstjórnar Reykjanesbæjar og hefur útgerðarfélagi skipsins verið gefinn frestur til klukkan átta í kvöld til að skila aðgerðaáætlun. Óskaði félagið eftir aðkomu að björgun þess.

„Það hefur lítið breyst varðandi skipið sjálft síðan í nótt, sem betur fer. Það er enn mjög heilt miðað við aðstæður,“ segir Otti Rafn. „Við höfum haldið áfram að tryggja öryggi á svæðinu og rannsóknarhagsmuni,“ segir hann, en lágmarksmannskapur frá björgunarsveitinni er að störfum á svæðinu, um tíu manns. 

Björgunarsveitarmenn á staðnum.
Björgunarsveitarmenn á staðnum. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Það er ólíklegt að eitthvað verði hægt að gera í dag, en ekki ómögulegt. Það gæti opnast gluggi, en það er ólíklegt. Það verður að segjast eins og er,“ segir Otti Rafn.

Veðurskilyrði betri en sjólag slæmt

Veður var mjög slæmt á strandstað í nótt, en í dag hefur lægt talsvert. Otti segir að sjólag sé þó enn vont. „Hvað varðar björgun á skipinu, þá gera menn ekkert úr landi eins og staðan er. Það er aðeins af sjó sem eitthvað er hægt að gera og veðrið er of vont til þess,“ segir hann og bætir því við að ólíklegt sé að nokkuð verði hægt að gera fyrr en í nótt eða á morgun. „Síðan gæti dúrað og þá gætu menn viljað gera eitthvað. Það eru samt ekki komnar fram neinar áætlanir um það hvað eigendur skipsins vilja gera,“ segir Otti Rafn, en sem fyrr sagði hefur útgerðarfélagið frest til klukkan átta í kvöld.

Umhverfisstofnun hefur einnig viðveru á svæðinu og höfðu fulltrúar stofnunarinnar með sér mengunarvarnarbúnað. Hann hefur þó ekki verið hægt að nota vegna veðurs. 

„Það brýtur svo mikið á skipinu að enginn kemst að því sjó- eða landmegin. Þá er ekki til neins að setja upp neinar girðingar, þær færu bara eitthvað,“ segir Otti Rafn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert