Skekkjur í kerfinu sem þarf að laga

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að nýtt greiðsluþátttökukerfi sem innleitt var …
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að nýtt greiðsluþátttökukerfi sem innleitt var í maí 2017 hafi í meginatriðum náð markmiðum sínum á þessum fyrstu misserum. mbl.is/Eggert

Meðal markmiða stefnu fyrir heilbrigðiskerfið til ársins 2030, sem kynnt var í gær, er að greiðsluþátttaka sjúklinga jafnist á við það sem lægst er í nágrannalöndum og að viðkvæmir hópar fái gjaldfría heilbrigðisþjónustu. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir það raunhæf markmið. 

Nýtt greiðsluþátttökukerfi var innleitt í maí 2017 og segir Svandís að kerfið hafi í meginatriðum náð þeim markmið sem lagt var upp með á þessum fyrstu misserum. „Þeir sem eru að borga gríðarlega mikið eru ekki lengur að borga svo mikið, heldur hámarksupphæðina á ári, sem er umtalsvert lægri en þessar gríðarlegu upphæðir sem voru áður til í dæminu,“ segir Svandís. Hins vegar séu skekkjur í kerfinu sem er mikilvægt að skoða og lagfæra. „Það er þá sérstaklega greiðsluþátttaka öryrkja og aldraðra,“ segir Svandís.

Greiðsluþátttaka almennings verði 15 prósent

Svandís segir að með því að setja fjármagn beint inn í greiðsluþátttökukerfið á fimm ára tímabili fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar megi draga úr greiðsluþátttöku sjúklinga og ná settum markmiðum.

Á Íslandi er greiðsluþátttaka almennings í lyfjakostnaði úr eigin vasa 17,4% og segir Svandís markmiðið á næstu fimm árum að ná meðaltalinu á Norðurlöndunum, sem er í kringum 15%. Með framtíðarstefnunni til ársins 2030 verði svo hægt að gera enn betur.

„Með því að setja aukið fjármagn í þrepum á þessu tímabili þá erum við að lækka greiðsluþátttökuna en þar eru ýmsir valkostir í stöðunni. Það væri hægt að draga úr greiðsluþátttöku í heilsugæslunni, lækka þakið yfir alla eða skoða ferðakostnað sem hefur ekki verið gert síðan 2004,“ segir Svandís.

Í stefnu fyrir heilbrigðiskerfið til ársins 2030 er einnig sett fram aðgerðaráætlun á grundvelli stefnunnar til fimm ára á hverju ári. Þannig getur hver ráðherra fyrir sig sett fram sínar aðgerðir undir hverjum kafla. „Þetta er ein meginsýn sem þýðir að þarna erum við að tala um að það verði mælanleg breyting á því hversu mikið íslenskur almenningur er að greiða úr vasa fyrir heilbrigðisþjónustu,“ segir Svandís.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert