„Það er full ástæða fyrir okkur nútímafólk að líta til baka og sjá afleiðingar nornaveiða, þær birtast með ýmsum hætti í nútímanum,“ segir Tapio Koivukari um hvaða erindi saga hans frá 17. öld um galdra eigi við nútímann. Þar segir frá Galdra-Möngu sem bjó á Ströndum og þurfti að leggja á flótta eftir að faðir hennar var brenndur á báli fyrir galdra.
„Munaðarnesfólkið var talið kunna ýmislegt fyrir sér og saga mín fylgir Möngu á flóttanum eftir að faðir hennar var brenndur, en hún var útskúfuð og ásökuð um fjölkynngi af sveitungum sínum. Samfélagið var stéttskipt og það ræður fyrir vikið miklu um réttindastöðu fólks í hvaða stöðu það er fætt. Kotungssonur hefur ekki sama rétt og sonur sjálfseignarbónda, og ég tel þetta misrétti hafa alið á öfund og gremju, sem hefur kraumað undir yfirborðinu. Þórði föður Möngu gekk vel í lífinu, hann var flinkur og klár og komst vel af, og þá var stutt í öfundina. Öfundin er eitt þeirra afla sem ég tel að geti hafa legið að baki því að fólk vildi knésetja Þórð og að allt fór úr böndunum,“ segir Tapio, sem kynnti sér sögu Þórðar og Möngu dóttur hans vel.
Þegar Tapio er spurður að því hvaða erindi bók um galdraofsóknir frá sautjándu öld eigi við okkur nútímafólk, segir hann það vera bjög brýnt erindi.
„Því þó að við höldum almennt að allt stefni til hins betra, þá er tilfellið að margt getur farið versnandi. Mér finnst núna blikur á lofti í heiminum og mörgu fer mjög svo aftur. Til dæmis að æ fleiri fyrirlíta vísindi, fyrirlíta rökhyggju, lýðræði og mannréttindi. Þetta er allt meira og minna í hættu, af því margir halda að það sé ekki mikilvægt að halda þetta í heiðri. Nú er líka uppgangur fasískra hugsana, en til þess að gerast alvöru fasisti þarf einmitt að sniðganga lýðræði, mannréttindi og vísindi, eða láta eins og það skipti ekki máli, heldur aðeins það eitt að hafa sterka leiðtoga sem hafa vit fyrir almenningi og segja almúganum hvernig á að gera hlutina. Og hlusta ekkert á rök. Það er full ástæða fyrir okkur nútímafólk að líta til baka og sjá afleiðingar nornaveiða, þær birtast með ýmsum hætti í nútímanum. Til dæmis getur fólk verið dæmt í fésbókarumræðum og tapað þar mannorðinu. Sögupersónurnar í bókinni minni um Galdra-Möngu eru venjulegt fólk, bæði þeir sem dæma og þeir sem eru dæmdir. En það er harmleikur okkar mannanna að venjulegt fólk getur gert hræðilega hluti. Hræðilegt fólk gerir líka venjulega hluti. Ekkert er svart/hvítt eða fyrirsjáanlegt í samfélagi mannanna.“
Sjá samtal við Tapio í heild í Morgunblaðinu í dag.