Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, gagnrýndi ríkisstjórnina harðlega í ræðu sinni á flokkráðsfundi flokksins á Akureyri og sagði hana bæði verklitla og kjarklausa. Ráðherrar hagi sér eins og bundið sé fyrir augun á þeim. Þeir sjái hvorki vandmálin sem eru uppi né þau tækifæri sem eru fyrir hendi.
„Þessi ríkisstjórn sýnir algjöran aumingjaskap í því hvernig hún nálgast stóru verkefni samfélagsins,“ sagði Sigmundur og nefndi að ríkisstjórnin væri kerfisstjórn sem eftirláti kerfinu að stjórna fyrir sig. Átti hann bæði við embættismannakerfið og fjármálakerfið, þar á meðal erlenda vogunarsjóði.
Hann sagði jafnframt enga ríkisstjórn hafa misst stuðning eins hratt og þá sem nú er við völd.
Hann sagði Framsóknarflokkinn hafa þráð að komast í ríkisstjórn hvað sem það kostaði og að hann hafi „fallið bardagalaust frá öllum helstu kosningaloforðunum“. Hann sagði flokkinn hafa lofað svissnesku, sænsku og belgísku leiðinni fyrir kosningar en hafi ekki fundið íslensku leiðina og uppskar við það mikil hlátrasköll í salnum. Í framhaldinu sagði hann Vinstri græn hafa haldið sig við austur-þýsku leiðina og heilbrigðisráðherra væri að rústa heilbrigðiskerfinu. Tvöfalt heilbrigðiskerfi sé að verða til.
Sigmundur nefndi að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gert mistök við myndun ríkisstjórnarinnar því Framsókn hefði sætt sig við eitt eða tvö ráðuneyti. Hann sagði Sjálfstæðisflokkinn hafa svikið öll helstu kosningaloforð sín og að hann sé að „dæla fjármagni í báknið og stækka það“.
Hann sagði ríkisstjórnina hafa svikið íslenskan landbúnað og matvælaframleiðslu og bætti við í þeim efnum að aðeins 10 ár séu liðin síðan landbúnaðurinn hafi bjargað landinu frá gjaldþroti. „Bændur eru eina stéttin á Íslandi þar sem eru beinlínis yfirlýst áform um að kjör þeirra eigi að skerðast,“ sagði hann og benti á fjármálaáætlun og áform um lækkuð framlög til matvælaframleiðslu. Þar með versni kjör þeirra sem starfi í greininni.
Sigmundur sagði fleiri hópa vanrækta í samfélaginu, þar á meðal eldri borgara og öryrkja. Varðandi innleiðingu stjórnvalda á 3. orkupakka ESB nefndi þingmaðurinn til sögunnar svokallaða „salamítaktík“ frá Ungverjalandi sem gangi út á að taka bara eina sneið í einu. Þannig verði stjórnvöld aldrei sökuð um að gera of mikið. Sama nálgun sé til staðar hjá ríkisstjórninni.
Hann bætti við að framfarasaga Íslands frá 1918 hafi verið „algjörlega einstök“. „Við þurfum að vera sjálfstætt land, ekki borgríki sem stjórnað er af innlendum og erlendum embættismönnum.“