Pallurinn tilbúinn fyrir hádegi

Enn er unnið að smíði pallsins.
Enn er unnið að smíði pallsins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ekki tókst að klára smíði palls út í flutningaskipið Fjordvik sem situr fast við stórgrýttan hafnargarð í Helguvík í nótt. Áfram verður unnið að smíðinni í dag og má búast við því að henni ljúki fyrir hádegi, að sögn Kjartans Más Kjartanssonar, bæjarstjóra í Reykjanesbæ.

Þegar smíðinni lýkur og öruggt verður að fara um borð verður ástand skipsins skoðað og næstu skref ákveðin. Kjartan Már býst ekki við að aðgerðir við björgun skipsins hefjist í dag.

Tveir skipabjörgunarsérfræðingar  komu til landsins frá Hollandi í gær á vegum útgerðarfélags Fjordvik og er von á þremur í viðbót í dag.

Að sögn Ásgeirs Erlendssonar, upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, er staðan hjá viðbragðsaðilum hennar óbreytt frá því í gærkvöldi. Varðskipin Þór og Týr eru bæði til taks og bíða frekari fyrirmæla.

Þá hefur hópur björgunarsveitarfólks einnig staðið vaktina við skipið frá því það strandaði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert