Slökktu í rafrettu í flugvél Wizz Air

Flugvél Wizz Air á Keflavíkurflugvelli.
Flugvél Wizz Air á Keflavíkurflugvelli. Mynd/Wizz Air

Áhöfn flugvélar Wizz Air frá Keflavík til Wroclaw í september á síðasta ári slökkti í rafrettu sem kviknað hafði í með vatni. Þetta kemur fram í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa.

Í ljós kom að takki rafrettunnar hafði fest inni í hliðarhólfi bakpoka sem geymdur var í farangurshólfi fyrir ofan sætaraðir flugvélarinnar.

Við veitingasölu tók einn í áhöfninni eftir reyk sem barst úr farangurshólfi vélarinnar. Annar hljóp til og náði í slökkvitæki og sá þriðji gerði öðrum flugliðum viðvart. Farþegi opnaði á meðan farangurshólfið og kom bakpokanum fyrir á gólfi vélarinnar. Áhöfnin fylgdi því næst starfsreglum og reyndi að hella vatni á rettuna, en nokkrum sinnum blossaði upp eldur í rafrettunni áður en endanlega tókst að slökkva í henni. 

Flugmenn vélarinnar lýstu fyrir neyðarástandi og tókst áhöfninni að lokum að koma rafrettunni fyrir í rusli undir vaski á salerni vélarinnar, en það er úr málmi og búið slökkvikerfi ef þar skyldi kvikna eldur. Frekara slökkvistarf þurfti ekki og var flugvélinni síðan lent í Keflavík.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert