Samkvæmt flugáætlun flugfélaganna Icelandair og WOW air fljúga félögin samtals til 56 borga. Icelandair flýgur til 45 áfangastaða á meðan WOW air býður upp á flug til 35 áfangastaða. Síðarnefnda flugfélagið býður þó upp á 37 lendingarstaði, þar sem flogið er bæði til London Gatwick og Stansted og New York JFK og EWR.
Sömu áfangastaðir eru 21 talsins, eða 37 prósent af heildarfjöldanum, þar á meðal allir sex vinsælustu áfangstaðir Icelandair: New York, Boston, Washington, London, París og Kaupmannahöfn.
Vert er þó að taka fram WOW air flýgur ekki til allra áfangastaðanna um þessar mundir, en hægt er að bóka flugferðir fram í tímann. Þetta á til að mynda við um Nýju-Delí, en flug þangað hefst ekki fyrr en í desember. Þá var flugi til Tel Aviv hætt í október og hefst það ekki aftur fyrr en í júní á næsta ári, en jafnframt er vetrarfrí á flugi til San Fransisco, Stokkhólms og Edinborgar og hefst það aftur á vormánuðum. Svo stendur til að hætta flugi til St. Louis í Bandaríkjunum um áramótin.
Greint var frá því í fréttum um miðjan október WOW air hygðist stækka leiðakerfi sitt um 15 prósent á næsta ári. Meðal annars auka tíðni flugferða til stærstu áfangastaða í Bandaríkjunum vegna eftirspurnar Indverja út af flugi til Nýju-Delí sem hefst í desember.
Einnig hefur komið fram að Icelandair ætli að kynna nýja útfærslu á leiðakerfinu árið 2019, en þegar Björgólfur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri félagsins, sagði starfi sínu lausu í lok ágúst sagðist hann meðal annars vilja axla ábyrgð á mistökum sem gerð voru við uppsetningu á því leiðakerfi sem nú er í gildi. Meðal breytinga sem gerðar voru var að fella út næturflug til Evrópu og morgunflug til Bandaríkjanna, en það orsakaði misvægi á milli framboðs fluga.
Áhugavert verður að sjá hvort og þá hvaða áhrif kaup Icelandair á WOW air munu hafa á leiðakerfi flugfélaganna og framboð á flugferðum, en líkt og áður sagði eru sömu áfangastaðir samtals 21.